Lagning ljósleiðara á Dalvík

Þann 8. mars síðastliðinn var haldinn kynningarfundur vegna lagningu á ljósleiðara á Dalvík en Dalvíkurbyggð og Tengir hf. hafa gert með sér samning þar að lútandi. Áður hafði Dalvíkurbyggð undirritað samning um lagningu ljósleiðara í dreifbýli Dalvíkurbyggðar og er stefnt að því að ljúka þeirri framkvæmd á þessu ári.

Gunnar Björn Þórhallsson, fulltrúi frá Tengi hf, fór yfir helstu upplýsingar vegna verkefnisins á fundinum. Í máli hans kom fram að ráðgert sé að framkvæmdirnar hefjast í sumar en á Dalvík eru um það bil 580 heimili og í kringum 60 fyrirtæki og stofnanir sem stendur til boða að tengjast ljósleiðaraneti Tengis hf.

Áhugi íbúa og kostnaður

Á næstu vikum verður verkið undirbúið og áhugi íbúa kannaður. Til þess að flýta fyrir þeirri vinnu er nauðsynlegt að áhugasamir íbúðareigendur á Dalvík sæki um ljósleiðaratengingu á heimasíðu Tengis hf. www.tengir.is  . Í kjölfarið verður gengið í hús þar sem nákvæmari staðseting ljósleiðara og inntaks verður ákveðin.

Kostnaður notanda við inntak ljósleiðara er 24.000 kr. á hverja eign í fjölbýli, 48.000 kr. á hverja eign í rað- og parhúsi og 96.000 kr. fyrir einbýli. Hægt er að dreifa kostnaði. Inn í kostnaðinum er lagning og frágangur á ljósleiðara innanhús auk þess sem stór hluti kostnaðar er jarðvinna en grafa þarf eða plægja niður fyrir röralögnum, eða streng, alla leið að hverjum notkunarstað og koma ljósþræði inn til notanda.
Til að fá nákvæmari upplýsingar er best að hafa samband við Þorstein Björnsson, sviðsstjóra veitu- og hafnarviðs eða Börk Þór Ottósson sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs í síma 460 4900.

Um fyrirtækið

Tengir hf. var stofnað árið 2002 og er í eigu Akureyringa, þar af á Norðurorka tæplega 40%. Markmið félagsins hefur frá upphafi verið að ljósleiðaravæða allar fasteignir á Eyjafjarðarsvæðinu. Ljósleiðaranetið nær til Siglufjarðar, Grenivíkur og inn allan Eyjafjörð að innsta bæ. Utan Akureyrar í Eyjafirði er þegar stór hluti kominn með ljósleiðaranet frá Tengi hf. og munu nánast allir íbúar í dreifbýli Eyjafjarðar eiga kost á að tengjast við ljósleiðara Tengis hf. í lok árs 2016 . Tengir hefur hannað og byggt upp P2P (Point-to-Point) net eingöngu. Fasteignir Dalvíkurbyggðar eru þegar skráðar í gagnagrunn hjá Tengi hf.