Kynningarfundur um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð

Mikið fjölmenni var á kynningarfundi um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð sem haldinn var í Dalvíkurskóla í gærkveldi. Jón Eggert verkefnastjóri kynnti þá vinnu sem farið hefur fram og einnig nýju framhaldsskólalögin. Nýju lögin veita framhaldsskólum mikið svigrúm til nýbreytni og fjölbreytni í skólastarfinu. Jón Eggert taldi mikla möguleika felast í nýju lögunum fyrir nýjan framhaldsskóla. Einnig nefndi hann að gott samstarf væri við skólameistara Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri og að þeir hefðu mikinn áhuga á samstarfi við framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Eftir framsögu Jóns Eggerts var fólk beðið að ræða hugmyndir um námsframboð og það sem fólk vill sjá í framhaldsskóla við utanverðan Eyfjörð. Nokkrir punktar komu mjög skýrt fram á fundinum og þeir voru að:
Fólk vill sjá þrjár starfsstöðvar, það er á Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði.
Fólk sá fyrir sér tveggja ára nám en í nýju lögunum kveður á um að allir eiga rétt á námi til 18 ára aldurs.
Útivist og fjallamennska ásamt skíðum og björgun var talin geta verið sérstaða skólans
Náttúru og umhverfisfræði var einnig nefnt sem sérstaða.
Nýting á sérstöðu hvers staðar var rædd svo sem fiskvinnsla á Dalvík, véla, járn og steinsmíði í Ólafsfirði og bátasmíði á Siglufirði.

Tenging við atvinnulífið var mjög ofarlega á baugi og þá sem þjónusta fyrir fyrirtækin. Hluti námsins gæti verið vinna innan fyrirtækjanna sem í samstarfi eru.

Nú er verið að mynda faghóp sem á að vinna með verkefnisstjóra að frekari útfærslu og stefnumótun fyrir nýjan framhaldsskóla. Anna Sigríður Hjaltadóttir hefur verið tilnefnd í faghópinn fyrir hönd Dalvíkurbyggðar.

Nokkrum nöfnum á framhaldsskólann var velt upp og voru þau Tröllaskóli, framhaldsskóli Tröllaskaga, Frútey, Útey og Drangur.