Kynningarfundir vegna nýrra skólalaga

Sameiginlegri fundaferð menntamálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um landið til kynningar og umræðna um ný lög um skóla og menntun lýkur með fundi í Reykjavík mánudaginn 19. janúar, í Skriðu, sal menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð. Fundurinn mun standa frá kl. 14:00 -16:00 og verður honum sjónvarpað beint á slóðinni http://sjonvarp.khi.is/ . Þeir sem ekki hafa tök á því að sækja þennan fund, eða hafa getað sótt kynningarfundina heima í héraði, hafa því tækifæri nú til þess að fylgjast með beinni útsendingu.

Um er að ræða fund fyrir stjórnsýsluna; sveitarstjórnarmenn, starfsmenn skóla- og fræðsluskrifstofa, skólanefndir og skólastjórnendur.

Reykjavík: 19. janúar kl. 14:00-16:00 í Skriðu, sal menntavísindasviðs HÍ v/Stakkahlíð
Fundarstjóri: Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri Reykjavíkurborgar

Á fundinum verður megináherslan lögð á að fjalla um þær breytingar og nýjungar sem lögin boða, með áherslu á leik- og grunnskólalög, og hafa munu sérstök áhrif á starfshætti sveitarfélaga og starfsmanna þeirra er sinna málefnum leik- og grunnskóla fyrst og fremst. Fjallað verður um ýmsar spurningar sem vaknað hafa í upphafi skólaársins, þ.á.m. gjaldtöku vegna skólamáltíða og ferðalaga nemenda, kostnað vegna náms grunnskólanemenda í framhaldsskólum, skipan skólaráða, samrekstrarmöguleika o.fl. Þá verður vikið að breytingum á hlutverki og skyldum skólastjórnenda og nýjum skyldum sveitarfélaga við eftirlit og mat á gæðum skólastarfs, vegna sérfræðiþjónustu o.fl . Spurt verður hvort skynsamlegt sé að setja á fót millikærustig innan sveitarfélags í ljósi kæruheimilda er tengjast ýmsum ákvæðum nýrra laga. Farið verður yfir stöðu reglugerðar- og námskrárvinnu í tengslum við lögin o.fl. Þessi álita- og umræðuefni auk þeirra annarra sem fundarmenn hafa áhuga á að bera upp verða í brennidepli á þessum fundum og gefinn verður góður tími til umræðna að loknum framsögum fulltrúa menntamálaráðuneytis og sambandsins.