Krílakot ráðstafar umbun byggðaráðs fyrir starfsfólk

Árið 2014 hlaut leikskólinn Krílakot í Dalvíkurbyggð umbun byggðaráðs fyrir góðan árangur í rekstri skólans, samhliða faglegu starfi, vegna ársins 2013. Þetta er í fyrsta sinn sem slík umbun er veitt. 

Að undangenginni umsögn framkvæmdarstjórnar (sveitarstjóri og sviðsstjórar) er byggðaráði heimilt að veita tilteknum vinnustað/vinnustöðum umbun úr sérstökum potti á fjárhagsáætlun. Umbunin er kr. 500.000 á stofnun, þó aldrei meira en kr. 50.000 á hvert stöðugildi. Þegar niðurstöður undanliðins fjárhagsárs liggja fyrir skal framkvæmdastjórn senda byggðarráði rökstudda tillögu.

Umbunin skal nýtt til þess að bæta starfsumhverfi starfsmanna og er það á höndum viðkomandi stjórnanda/starfsmanna að ákvarða hvernig umbunin er nýtt í þágu vinnustaðarins/starfsmanna.

Í Krílakoti var sú leið farin að settur var upp hugmyndakassi þar sem starfsfólk gat komið með hugmyndir að því hvernig hægt væri að nýta þessa umbun. Hugmyndirnar voru svo yfirfarnar og var afgerandi að starfsfólk vildi fá námskeið sem miðaði að hópefli og að efla gleði í starfi. Niðurstaðan var að námskeið verður nú í febrúar um mikilvægi þess að hafa gleði að leiðarljósi og lifa fyrir daginn í dag. Einnig koma fram að starfsfólk vildi vatnsvél á kaffistofu svo nú er komin vatnsvél sem býður uppá kalt vatn alla daga auk sódavatns og er það í anda Heilsustefnu Dalvíkurbyggðar að stuðla að vatnsdrykkju. Að endingu var vilji til að gera eitthvað skemmtilegt saman og varð niðurstaðan sú að fara saman á jólahlaðborð.

Takk fyrir okkur!
Starfsfólk Krílakots