Klukkur klingja og Jólakonfekt í Bergi

Tónlistarhátíðin Bergmál á Dalvík verður haldin í fjórða sinn dagana 6. og 7. desember 2013. Hátíðin hefur verið haldin að sumarlagi í þrjú skipti frá árinu 2010, með þrennum til fimm tónleikum í hvert skipti. Hátíðin í ár er fjórða Bergmálshátíðin og mun hátíðarbragur svo sannarlega einkenna dagskrána, sem er á þessa leið:

Föstudaginn 6. desember kl. 21:00 Klukkur klingja - Ragnheiður Gröndal
Ragnheiður Gröndal ásamt hljóðfæraleikurum Bergmáls flytur hlýlega vetrartónlist, nýleg lög í bland við efni af plötu Ragnheiðar, Vetrarljóð, sem og þekkt lög eins og Jólaköttinn eftir Ingibjörgu Þorbergs. Miðaverð kr. 3000.

Laugardaginn 7. desember kl. 20:00 Jólakonfekt – Hallveig Rúnarsdóttir o.fl.
Aðventutónlist eins og hún gerist best. Bach, Brahms, Wolf og Fauré, auk íslenskra laga. Þula Café-Bistro bíður tónleikagestum upp á heitan jóladrykk og Bergmál bíður að sjálfsögðu upp á jólakonfekt. Í eldlínunni verður okkar ástsæla sópransöngkona Hallveig Rúnarsdóttir, sem nú í haust fór á kostum sem Micaela í uppfærslu Íslensku óperunnar á Carmen í Hörpu.
Sérstakur gestur verður Ella Vala Ármannsdóttir, hornleikari og Svarfdælingur.
Miðaverð kr. 2.500 (drykkur og konfekt innifalið).

Passi á báða tónleikana á frábæru tilboðsverði aðeins kr. 4.500


Fólkið á baki við Bergmál eru píanóleikarinn Kristján Karl Bragason, Hafdís Vigfúsdóttir flautuleikari og Grímur Helgason klarinettuleikari. Skipuleggjendur hafa allir lokið mastersnámi í sínu fagi erlendis og eru búsettir í Reykjavík.

Framtíðartímasetning hátíðarinnar er snemmsumars og er fimmta Bergmálshátíðin fyrirhuguð dagana 19.-22. júní 2014. Þegar hefur glæsilegur hópur tónlistarfólks staðfest þátttöku sína og er ljóst að fjölbreytni verður eftir sem áður í fyrirrúmi (nánar tilkynnt síðar). Söngur hefur jafnan skipað stóran sess á hátíðinni. Að loknu Bergmáli í desember næstkomandi munu þrettán söngvarar hafa komið fram á tónleikum hátíðarinnar, flestir landskunnir listamenn á sviði óperu-, ljóða- og rytmísks söngs, en einnig fólk af yngri kynslóð söngvara sem eru að hefja sinn feril. Hljóðfæraleikur hefur verið í höndum hljóðfæraleikara sem hafa nýlega lokið framhaldsnámi í tónlist erlendis.