Júníspá Veðurklúbbsins á Dalbæ

Veðurklúbburinn á Dalbæ hefur nú gefið út veðurspá sína fyrir júní mánuð en fundur var haldinn í klúbbnum þriðjudaginn 3. júní 2014.

Farið var yfir veðurfar í maí og voru fundarmenn á einu máli um að maí spáin hafi staðið fyllilega undir væntingum og jafnvel rúmlega það. Ríkjandi áttir framan af júnímánuði koma til með að verða suð- og suðaustlægar og þokkalegur hiti en ekki öruggt með sólfar. Í kringum 17. júní gæti vindátt snúist í NA og þá kólnar lítillega. Þetta stendur ekki lengi og veður fer fljótt hýnandi. Tunglið sem kviknaði 28. maí í V. Kl. 18:40 verður ríkjandi fyrir veðurfar í mánuðinum þar sem nýtt tungl kviknar ekki fyrr en 27. júní og þá í A. Gera má ráð fyrir góðri sprettutíð og fyrir þá sem áhugasamir eru um berjahorfur er reiknað með góðri berjasprettu þegar líður á sumarið en frekari grein verður gerð fyrir því þegar líður á sumarið.

Nákvæmari spá fyrir hvern mánuð.

Með góðri kveðju,

Veðurklúbburinn á Dalbæ