Júlíspá frá Veðurklúbbnum á Dalbæ

Föstudaginn 4. júlí 2014 var fundur haldinn í Veðurklúbbi Dalbæjar. Veður var fremur hryssingslegt og kann það að hafa haft áhrif á væntingar fundarmanna til veðurspár.

Eftir yfirlestur á júníspánni voru menn sammála um að sú spá hefði verið mjög nálægt lagi, þó svo að veðrið væri ívið betra en spáð var. Ekki væri ástæða til að fjargviðrast yfir þeirri ónákvæmni.

Hvað varðar veðurhorfur í júlímánuði þá er til að taka að tungl kviknaði í austri föstudaginn 27. júní kl. 08:09. Trú veðurspámanna er sú að allt fram undir 20. júlí verði norð- og austlægar áttir með talsverðri úrkomu og hitastig ekki hátt m.v. árstíma. Eftir þetta leiðindatímabil muni gera smávægilega glennu, sem kemur til með að standa eitthvað fram yfir máðaðarmót.

Svo vikið sé frá svartsýnum spádómum, þá vilja klúbbfélagar árétta spá sína frá því í júní um mjög góðar horfur á berjasprettu.

Að lokum vilja klúbbfélaga taka fram að það verður alltaf eitthvert veður og því verður bara að taka með góðu hugarfari.

Með góðri kveðju,

Veðurklúbburinn á Dalbæ