Jólin verða hvít

Félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ hittust í gær, þriðjudag, og funduðu. Voru þeir sammála um að nóvemberspáin hefði gengið eftir. Tungl kviknar 9.des í V.S.V. og töldu félagar að desember yrði svipaður nóvember, hugsanlega heldur fleiri dagar með norðanátt en í síðasta mánuði, en þó verði suðlægar áttir í meirihluta. Í þessum norðan dögum verði smá hret í hvítu, og jólin munu verða hvít. Í heildina verður þó desember mildur mánuður miðað við árstíma. Björg draumakona og sálfræðingur heimsótti veðurklúbbinn og sat fundinn og senda klúbbfélagar þessa vísu í lokin með fengitíma og jólakveðjum:

Þó á lofti lækki sól,
og lóur ekki syngi.
Gleði spáðu og góðu um jól,
með glæstum sálfræðingi.