Jólatré fyrir jólin

Ljóst er að minna verður flutt til landsins af jólatrjám á næstu vikum vegna óvissuástandsins í viðskiptalífinu. Þessari þróun munu Skógrækt ríkisins og skógræktarfélög landsins mæta eftir bestu getu með því að selja íslensk jólatré og bjóða fólki áfram upp á að koma í skógana og höggva sér tré um land allt. Nú þegar hafa margir haft samband við Skógrækt ríkisins og greinilegt er að fólk vill tryggja sér jólatré með góðum fyrirvara. 

Á Norðurlandi selur Skógrækt ríkisins á Norðurlandi sín jólatré í Kjarnaskógi, en býður ekki upp á að fólk geti höggvið sín eigin tré að þessu sinni. Þá þjónustu býður hins vegar Skógræktarfélag Eyfirðinga í Þelamörk allar helgar í desember frá 12:00 - 15:00.
Skógræktarfélög landsins munu einnig bjóða upp á þessa þjónustu og verður hún auglýst nánar á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands á næstu dögum.

Frétt fengin af www.dagur.net