Jólapósturinn á Þorláksmessu

Jólapósturinn á Þorláksmessu

Á Þorláksmessudag á milli klukkan 13.00-16.00 verður tekið á móti jólapósti í Dalvíkurskóla eins og undanfarin ár. Verð fyrir hvert kort er 100 krónur og 500 kr. fyrir pakka.

Á aðfangadagsmorgun fara svo jólasveinar á stjá um Dalvíkina og Svarfaðardal og bera út póst og pakka með gleðilátum og þiggja í staðinn eitthvað smálegt, s.s. mandarínur eða nammi.

Þessi hefð hefur verið við lýði svo lengi sem elstu menn muna og er ein af dásemdar jólahefðunum okkar hér í Dalvíkurbyggð. EN.. til þess að jólasveinarnir fari um bæinn þarf að senda kort og/eða pakka í jólapóstinn - og til þess að jólasveinarnir heimsæki ykkur þurfið þið líka að eiga sendingu í póstinum hjá þeim!

Það er von okkar og trú að þessi dásemdarhefð haldist og að litlu börnin okkar fái að njóta þessa eins og þeir sem hafa alist upp hér.

Öll vinna sem unnin er í kringum jólapóstinn og jólasveina er unnin í sjálfboðavinnu. Starfsfólk skólans tekur á móti póstinum og sér um að hjálpa jólasveinunum á aðfangadagsmorgun. Nemendur í 7.-10. bekk sjá um að flokka póstinn og eru aðstoðarmenn jólasveinanna á aðfangadag. Allur peningur sem kemur inn rennur óskiptur til Bókasafns Dalvíkurskóla.