Jólagjafir til barna í Ittoqqortoormiit

Jólagjafir til barna í Ittoqqortoormiit

Fyrir tveimur árum gaf þorri starfsmanna Dalvíkurbyggðar andvirði jólagjafar sinnar frá sveitarfélaginu til styrktar börnum í vinabæ okkar á Grænlandi, Ittoqqortoormiit. Það var síðan ekki fyrr en nú í haust að þessar gjafir komust til skila og það í formi útifatnaðar á börn og ungmenni í þorpinu.
Haft var samráð við stjórnendur Kutsadda sem er einskonar samverustaður eða félagsmiðstöð ungmenna í Ittoqqortoormiit og úr varð að færa börnum einstæðra foreldra og börnum úr veiðimannafjölskyldum vandaðan útifatnað.
Tuttugu börn nutu þess að fá vandaðan útifatnað sem keyptur var í Samkaup Úrval á Dalvík og í Útivist og Sport í Reykjavík á góðum kjörum. Flugfragtin hjá Flugfélagi Íslands sá um að vörurnar kæmust á áfangastað á þess að greiða þyrfti fyrir og  Helena Dejak hjá ferðaskrifstofunni Nonna á Akureyri var okkur til aðstoðar við að koma þessu til skila en hún er öllum hnútum kunnug á þessum slóðum. Starfsfólk Dalvíkurbyggðar færir þessum aðilum kærar þakkir fyrir þeirra þátt.
Lone Madsen stjórnarformaður Kutsadda sendi okkur bréf með þökkum og myndum þar sem fram kom að gleði barnanna var mikil og foreldrarnir báðu fyrir þakkarkveðjur til starfsmanna Dalvíkurbyggðar; "I får et kys og knus som tak!"

Bréfinu frá Lone lauk með þessum orðum: 
"Juullimi ukiortaassamilu pilluaqqusilluta ukioq 2010 qaangiuttumi suleqatigiilluarnermut qujavugut, neriulluta siunissaq qaamajuassasoq.2011-imi suli suleqatigiilluarnissaq qilanaaraarput". Fyrir þá sem ekki skilja þá þýðir þetta: "Með óskum um gleðileg jól og farsælt komandi ár, þökkum samstarfið árið 2010 og hlökkum til að eiga áfram gott samstarf árið 2011".

2011".