Íþróttamiðstöðin vígð

Íþróttamiðstöðin vígð

Laugardaginn 2. október næstkomandi verður nýja íþróttamiðstöðin á Dalvík formlega vígð. Hönnuður hússins er Fanney Hauksdóttir, arkitekt hjá AVH á Akureyri, aðalverktaki er Tréverk hf. á Dalvík. Húsið er tengt Sundlaug Dalvíkur sem verður þannig hluti íþróttamiðstöðvarinnar.

Vígsluathöfnin hefst klukkan 11 árdegis, en strax að henni lokinni fer fram vígslumót í frjálsum íþróttum þar sem keppt verður í stangarstökki, hástökki og sprettum. Þar taka þátt sterkustu íþróttamenn landsins í viðkomandi greinum.
Sunnudaginn 3. október verður dagskrá í boði íþróttafélaganna allan daginn.

Það er öllum velkomið að taka þátt í deginum og fagna þessum merka áfanga í sögu sveitarfélagsins.

VÍGSLUMÓT Í FRJÁLSUM ÍÞRÓTTUM
Þegar vígsluathöfn íþróttamiðstöðvarinnar lýkur, kl. 12:00, fer fram stökk og sprettmót í umsjón frjálsíþróttadeilda á svæðinu þar sem sterkustu keppendur landsins etja kappi í stangarstökki, hástökki og 35 m spretti.

Helstu keppendur eru Bjarki Gíslason stangarstökkvari úr UFA, sem verður að kljást við Reykvíkinginn Börk Smára Kristinsson úr ÍR.
Þorsteinn Ingvarsson og Hafdís Sigurðardóttir langstökkvarar úr HSÞ mæta og keppa í 35m hlaupi ásamt Arnóri Jónssyni landsliðsmanni úr Breiðablik.
Svo verður spennandi keppni í hástökki kvenna þar sem heimastúlkur úr UMSE keppa við stöllur sínar að norðan.
Í 35m hlaupinu keppir landsliðsfólk í karla og kvennaflokki.

Hinn góðkunni Sigurbjörn Árni Arngrímsson lýsir mótinu með tilþrifum eins og honum er einum lagið.