Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2015 er Ólöf María Einarsdóttir

Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2015 er Ólöf María Einarsdóttir

Í tilefni lýsingar á kjöri á íþróttamanni Dalvíkurbyggðar bauð íþrótta- og æskulýðsráð til mannfagnaðar þriðjudaginn 5. janúar í Bergi menningarhúsi.
Auk þess að lýsa kjöri á íþróttamanni Dalvíkurbyggðar veitti íþrótta- og æskulýðsráð styrki úr Afreks- og styrktarsjóði og undirritaði styrktarsamninga við íþróttafélög í Dalvíkurbyggð sem gilda næstu fjögur árin.

Styrki úr Afreks- og Styrktarsjóði hlutu eftirfarandi; Bríet Brá Bjarnadóttir, Guðfinna Eir Þorleifsdóttir, Helgi Halldórsson, Arnór Snær Guðmundsson, Ólöf María Einarsdóttir, Hjörleifur H. Sveinbjarnarson, Viktor Hugi Júlíusson, Amanda Guðrún Bjarnadóttir og Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir. Að auki fengu Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar UMFS, Golklúbburinn Hamar, Skíðafélag Dalvíkur og Hestamannafélagið Hringur styrk til að halda úti fræðsluakademíu fyrir ungt íþróttafólk í Dalvíkurbyggð.

Tilnefndir til íþróttamanns Dalvíkurbyggðar 2015 voru Anna Kristín Friðriksdóttir Hestmannafélaginu Hring, Andrea Björk Birkisdóttir Skíðafélagi Dalvíkur, Hjörleifur Helgi Sveinbjarnarson Sundfélaginu Rán og Ólöf María Einarsdóttir Golfklúbbnum Hamri.


Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2015 er Ólöf María Einarsdóttir kylfingur í Golfklúbbnum Hamri á Dalvík.


Ólöf, sem er 16 ára, varð íslandsmeistari í höggleik í 15-16 ára aldursflokki og íslandsmeistari í sveitakeppni 16-18 ára. Ólöf er í afrekshópi Golfsambands Íslands. Einnig tók hún þátt í fjölda móta með góðum árangri. Ólöf tók þátt í tveimur mótum erlendis og stóð sig mjög vel og var klúbbnum sínum og landi til sóma á þeim ferðum hvað varðar hegðun og háttvísi.

Í umsögn segir að Ólöf stundi æfingar mjög vel og æfi mikið aukalega utan hefðbundins æfingatíma. Hún er mikil og góð keppnismanneskja sem gefur mikið af sér við þjálfun krakkana í klúbbnum og er þeim góð fyrirmynd.

Íþrótta- og æskulýðsráð óskar öllum þeim sem tilnefndir voru til hamingju með tilnefningarnar.