Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2013

Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2013

Þann 3. janúar síðastliðinn var kjöri Íþróttamanns Dalvíkurbyggðar lýst en af því tilefni bauð íþrótta- og æskulýðsráð til mannfagnaðar í safnaðarheimili Dalvíkurkirkju.

Ásamt því að lýsa kjörinu voru veittar viðurkenningar úr afreks- og styrktarsjóði. Að þessu sinni fengu þau Anna Kristín Friðriksdóttir, Arnór Reyr Rúnarsson, Arnór Snær Guðmundsson, Birta Dís Jónsdóttir, Júlía Ýr Þorvaldsdóttir, Júlíana Björk Gunnarsdóttir, Ólöf María Einarsdóttir, Nökkvi Þórisson og Skúli Lórenz Tryggvason einstaklingsviðurkenningar. Að auki fengu viðurkenningar Grjótglímufélagið, Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar UMFS og Björgunarsveitin fyrir uppbyggingu í sínu starfi.

Heiðursviðurkenningu fékk Heiðar Helguson, en hann hefur verið einn fremsti knattspyrnumaður þjóðarinnar um árabil og var það afi hans sem veitti viðurkenningunni mótttöku.

Tilnefnd til Íþróttamanns Dalvíkurbyggðar 2013 voru þau Anna Kristín Friðriksdóttir hestamannafélaginu Hring, Arnór Snær Guðmundsson golfklúbbnum Hamar, Jakob Helgi Bjarnason Skíðafélagi Dalvíkur, Júlíana Björk Gunnarsdóttir frjálsar UMFS, Karl Vernharð Þorleifsson frjálsar UMFS, Kristján Sigurólason Dalvík/Reyni, Ólöf María Einarsdóttir golfklúbbnum Hamar og Thelma María Heiðarsdóttir sundfélaginu Rán.

Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2013 er Anna Kristín Friðriksdóttir.

Anna Kristín Friðriksdóttir hefur skarað fram úr hvað varðar félagsmenn Hrings á keppnisvellinum og er komin á meðal þeirra fremstu á landinu. Bak við slíkan árangur er mikil vinna með miklum aga og áhuga á íþróttinni. Henni hefur tekist að bæta sig jafnt og þétt samhliða því að þjálfa hesta sína þannig að saman eru þau í fremstu röð. Anna Kristín vann sigur á Íslandsmóti í Fimi A2, 3. sæti á Íslandsmóti í fjórgangi, 4. sæti A-úrslit á Íslandsmóti í tölti. Anna Kristín er tilnefnd í flokki Efnilegusti knapi ársins 2013 af Landsambandi Hestamanna. 

Íþrótta- og æskulýðsráð óskar öllum þeim sem tilnefndir voru til hamingju með tilnefningar og Önnu Kristínu til hamingju með að vera Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2013.

Hér fyrir neðan má sjá umsagnir um aðra þá sem voru tilnefndir:

Arnór Snær Guðmundsson varð íslandsmeistari í holukeppni og í höggleik í sínum aldursflokki og endaði í öðru sæti á stigalistanum í sínum aldursflokki. Hann hafnaði í öðru sæti meistaramóti GHD. Arnór fellur undir þau viðmið sem GSÍ notar fyrir afrekskylfing.

Jakob Helgi Bjarnason er skíðamaður Skíðafélags Dalvíkur. Jakob varð þrefaldur unglingameistari í flokki 16 – 17 ára, sigraði í svigi, stórsvigi og alpatvíkeppni. Hann varð í 3. sæti í svigi á Skíðamóti Íslands. Jakob átti við meiðsli að stríða á árinu og kom hann tilbaka úr þeim inn á síðasta FIS mót vetrarins, Icelandair Cup í Bláfjöllum þar sem hann sigraði.

Júlíana Björk Gunnarsdóttir hefur staðið sig vel í frjálsum íþróttum á árinu og náð góðum árangri og þá sérstaklega stangarstökki. Hún varð Íslandsmeistari innanhús og komst í úrvalshóp FRÍ. Hún bætti sig í kúlu, spjóti og stangarstökki. Júlíana Björk er félagi sínu til mikils sóma, bæði innan vallar sem utan.

Karl Vernharð Þorleifsson hefur staðið sig vel í frjálsum íþróttum á árinu og náð góðum árangri þó sérstaklega í spjótkasti sem er hans aðalgrein. Hann á annað lengsta kast ársins og komst hann í úrvalshóp FRÍ. Hann hefur sýnt það að hann er meðal þeirra bestu í sínum flokki í spjótkasti. Hann bætti sig í kúlu úti og inni og er með 4. besta árangur ársins í sínum aldursflokki.

Kristján Sigurólason er lykilmaður í vörn Dalvík / Reynis í ár eins og undanfarin ár. Hann var varafyrirliði liðsins á tímabilinu. Kristján er feykilega sterkur og fastur fyrir en um leið góður á bolta þannig að hann getur fært ró yfir leik liðsins, einnig hefur hann mjög jákvæð áhrif á aðra í liðinu.

Ólöf María Einarsdóttir varð íslandsmeistari í holukeppni og í höggleik í sínum aldursflokki. Hún varð jafnframt stigameistari í sínum flokki. Ólöf María sigraði í meistaramóti GHD í kvennaflokki og setti einnig vallarmet þegar hún lék á 1 undir pari. Ólöf mætir vel á æfingar, er metnaðarfull fyrir golfinu og æfir vel utan æfinga. Hún á auðvelt með að aðstoða þá kylfinga sem yngri eru og eru þeim góð fyrirmynd.

Thelma María Heiðarsdóttir vann til bronsverðlauna í 100 m bringusundi á aldursflokkameistaramóti Íslands í sundi. Thelma María á stigahæsta sundið á árinu hjá Sundfélaginu Rán. Þeim árangri náði hún í 50 m skriðsundi á Sprengimóti Óðins.