Innleiðing aðalnámskrár heldur áfram í Dalvíkurskóla

Kæru skólaforeldrar og aðrir íbúar Dalvíkurbyggðar!

Á síðasta skólaári hóf Dalvíkurskóli innleiðingarferli nýrrar aðalnámskár grunnskóla og var þá sérstök áhersla lögð á að grunnþættirnir sköpun og jafnrétti væru sem sýnilegastir í skólastarfinu. Fjöldi frábærra verkefna varð til í tengslum við þessa vinnu og óhætt er að segja að hún hafi ýtt undir breytingar á vinnubrögðum, hugsanagangi og viðhorfum starfsfólks og nemenda.

Nú höldum við ótrauð áfram og tökum tvo nýja grunnþætti fyrir. Fyrri hluta skólaársins munum við einbeita okkur að því að gera lýðræði og mannréttindum hátt undir höfði í skólastarfinu og seinni hluta skólaársins munum við leggja áherslu á heilbrigði og velferð. Á vordögum verða svo þemadagar tileinkaðir þessum tveimur grunnþáttum og í kjölfar þeirra verður öllum íbúum Dalvíkurbyggðar boðið á opið hús í skólanum til að skoða afraksturinn.

Auk þess að innleiða áðurnefnda grunnþætti munum við endurskoða námsmat í lykilhæfni. Allir nemendur skólans fengu slíkt mat við lok vetrarannar á síðasta skólaári en nú hefur sú ákvörðun verið tekin að hér eftir verði lykilhæfni metin í lok hvers skólaárs og afhent með vorannarmati.

Þeir sem vilja kynna sér aðalnámskrá grunnskóla eða útgefin þemahefti um grunnþættina geta nálgast hvoru tveggja á vef Menntamálaráðuneytisins, http://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/adalnamskra-grunnskola/ .

Bestu kveðjur,
Erna Þórey Björnsdóttir, verkefnastjóri innleiðingar aðalnámskrár grunnskóla