Innanhúsklifuraðstaða á Dalvík

Uppbygging á innanhúsklifuraðstöðu í Víkurröst á Dalvík hófst í vor og hefur gengið vonum framar í sumar. Stofnaður var félagsskapur um verkefnið sem fengið hefur nafnið Grjótglímufélagið og sér það um alla fjármögnun og uppbyggingu á klifurveggnum. Eitt aðalarkmið verkefnisins er að auka fjölbreytni og afþreyinga möguleika í Dalvíkurbyggð. Í klifri er einnig verið að glíma við sjálfan sig óháð öðrum, og minni krafa á félagslega færni en í mörgum öðrum íþróttum. Að baki félaginu stendur áhugafólk um íþróttina ásamt björgunarsveitinni á staðnum og eru allar framkvæmdir unnar í sjálfboðavinnu. Efni til verksins fékkst á mjög hagstæðu verði í upphafi sumars sem gerði það að verkum að hægt var að fullnýta húsnæðið. Smíðin er langt komin og einungis smá frágangur eftir og vill Grjótglímufélagið þakka öllum þeim aðilum sem komið hafa að verkefninu. Dalvíkurbyggð styrkti verkefnið rausnarlega og svo hafa ýmis fyrirtæki stór og smá, styrkt verkefnið. Þar má nefna: Sölku fiskmiðlun, Bergmenn Mountain Guides, Promens, Dalpay, Tréverk, Ekta fisk, Bruggsmiðjuna Árskógssandi og Tommuna.

Grjótglímufélagið hefur birt fréttir af framkvæmdunum á Facebook-síðu sinni og er veggurinn farinn að vekja talsverða athygli. Eru hugmyndir uppi um að halda hluta af Íslandsmeistaramótinu í klifri á Dalvík þegar aðstaðan verður tilbúin. Nú þarf félagið hins vegar að safna frekari styrkjum til að fjármagna kaup á fleiri klifurgripum, því veggurinn er hálf tómlegur eins og er. Eru þeir sem hafa áhuga á að styrkja verkefnið beðnir að hafa samband við Grjótglímufélagið í síma 868 8051.