Hvatningarsamningur gerður við Ektafisk ehf.

Í dag , miðvikudag, var undirritaður Hvatningarsamningur við Ektafisk ehf. í Ráðhúsinu. Á meðfylgjandi mynd má sjá Elvar Reykjalín og Svanfríði Ingu Jónasdóttur bæjarstjóra Dalvíkurbyggðar handsala samninginn.

Um Hvatningarsamninginn
Hvatningarsamningurinn fylgir í kjölfar reglna um stuðning við fyrirtæki og frumkvöðla hér í Dalvíkurbyggð og er hugsaður sem tímabundinn stuðningur við þá frumkvöðla og fyrirtæki sem hefja hér starfssemi og/eða stuðla að nýsköpun og atvinnutækifærum sem sakapa fjölbreytni í atvinnulífi innan sveitarfélagsins. Bæjarráð auglýsir eftir umsóknum um styrkinn í september ár hvert.

Um Ektafisk ehf.
Ektafiskur ehf. er fjölskyldufyrirtæki á Hauganesi sem sérhæfir sig í framleiðslu á saltfiski og alls fimm ættliðir unnið í fyrirtækinu.  Fyrirtækið framleiðir gæðasaltfisk sem seldur er til Spánar og svo einnig hér innanlands, þar sem öll helstu veitingahús landsins kaupa af honum gæða saltfisksteikur. Ektafiskur stefnir nú að því að koma upp eldhúsi þar sem hægt verður að framleiða ýmsa tilbúna saltfiskrétti til sölu í verslunum hér heima og erlendis.