Hús vikunnar - Vegamót

Hús vikunnar - Vegamót

Hús vikunnar - Vegamót (1914) 

(Svarfdælingar II bindi bl. 470)
Smábýli sem kemur fyrst fram með þessu nafni 1916 og mun vera stofnað það ár. Vegamót eru innarlega á Dalvíkinni og má segja að þau séu á mörkum kauptúnsins og sveitarinnar eins og þau voru lengi. Býlinu fylgir nokkrar grasnytjar.

(Saga Dalvíkur II bindi, bl. 401 (eins og staðan var 1918))
Eigendur og húsráðendur Þorsteinn Jónsson frá Hóli út og k.h. María Eðvaldsdóttir úr Nýabæ. Íbúðarhús úr torfi og timbri 12 x 6 álnir.

(Fasteignarmat 1931)
Lóð 1 ha. Girt með gaddavírsgirðingu. Á lóð er torfbær, leigulóð. Húsið er 7,5 x 3,75 m úr torfi og timbri byggt 1914, rakt en hlýtt. Fjós og fjárhús af torfi 7,5 x 7,5m. Eigandi Þorsteinn Jónsson.

(Skrá yfir hús og bæi á Dalvík 2. júní 1934. úr skýrslu Jarðskjálftanefndar)
Torfbær, veggir gliðnaðir en grindin stæðileg. Reykháfur þarfnast viðgerðar. Húsráðendur, Ingigerður Sigfúsdóttir og sambýlismaður Valdimar Jónsson.

(Fasteignarmat 1940)
Eigandi Þorsteinn Jónsson (frá Hóli) ábúandi, Ingigerður Sigfúsdóttir.
Lóð 2,66 ha. Töðufall 45 hestar. Áhöfn 1 kýr og 2 kindur. Vatnsleiðsla í húsið.
Íbúðarhús af timbri og bárujárni stærð: 7,5 x 3,8 x 2,5 m. gamalt, viðgert 1934 allstæðilegt.

Stutt saga húss.
Þorsteinn Jónsson bjó á hluta af Hóli á Upsaströnd frá 1907 til 1909 en flutti þá til Dalvíkur og bjó þar til æviloka. Hann eignast Vegamót og um skeið, (1916 til 1922) hafði hann þar aðsetur og var stundum kenndur við þann stað. Kona hans var María Eðvaldsdóttir en hún dó í Vegamótum 1920 af barnsförum, þá 42 ára gömul.
Arnór Björnsson og kona hans Þóra Sigurðardóttir flutti frá Ytra-Garðshorni í Vegamót árið 1921 og bjuggu þar í eitt ár en fluttu þá að Knappstöðum í Fljótum.
Sigurður Þorgilsson flutti frá Sökku árið 1922, ásamt konu sinni Petrínu Þórunni Jónsdóttur í Vegamót og þau bjuggu þar til 1924 en flutti þá í Karlsá.
Ingigerður Sigríður Sigfúsdóttir bjó í Vegamótum frá 1924. Ingigerður missti Arngrím mann sinn í sjóinn sumarið 1910 frá stórum barnahópi þegar þau bjuggu í Jarðbrúargerði. Árið 1911 réð hún til sín ráðsmann, Valdimar Jónsson, fyrr bóndi á Syðri-Másstöðum. Bjuggu þau saman í “Gerðinu” til 1924, en fluttu þá til Dalvíkur og áttu þar heima í Vegamótum til æviloka en hún dó 1947. Ingigerður var frábærlega dugleg og tápmikil kona. Auk barna sinna ól hún upp Bergþóru Jónsdóttur sonardóttur sína.
Eftir að húsið lagðist af sem mannabústaður var það nýtt sem gripahús í mörg ár en nú er þar rekin ferðaþjónusta.

(Greinargerð Hólmsteins Snædal sem hafði umsjón með endurbyggingu Vegamóta).
Gamla húsið á Vegamótum er byggt árið 1914, þegar fólk fór að flytja til Dalvíkur til fastrar búsetu.
Húsið er eiginlega eldra en ártalið segir til um því það er af 19. aldar gerð. Enginn grunnur eða sökkull var undir veggjum heldur voru bara stoðir með stoðarhellu undir endum, og síðan var húsið þiljað að innan með panel en hlaðnir torfveggir að utan. Þessir torfveggir voru upp fyrir miðja veggi á langhliðum en upp undir glugga á stöfnum. Ofanvið þessa torfveggi var panelklætt utaná stoðirnar, með þykkum tjörupappa undir.
Að innanverðu var húsið klætt með standandi panel sem stóð í falslistum að ofan og neðan. Tæplega helmingur af lengd hússins, suðurhlutinn, er með bogalöguðu lofti. En hinn hlutinn er með bitum og klætt ofan á þá með misþykkum lélegum gólfborðum.
Eftir að byggt var nýtt hús á lóðinni var þetta hús notað sem fjós og geymsla, og síðast bílskúr. Við þetta hlaut það marga skrokkskjóðu á útliti og innviðum. Einhvern tíman á ferlinum hafa torfveggirnir verið rifnir og steyptir veggir utaná stoðirnar mishátt upp, en ekkert niður fyrir stoðir.

Athugasemd um hús.
Haustið 2008 var hafist handa við lagfæringar á húsinu, því annars hefði það ekki staðið mikið lengur.
Að utanverðu voru veggirnir klæddir með nótuðum panel niður að áminnstum steinveggjum, þar sem þeir voru búnir að vinna sér hefðarrétt á staðnum. Þakið var klætt með bárujárni eins og verið hafði.
Bæði panell og vindskeiðar voru hafðar að sömu gerð og var frá upphafi. Að innanverðu var steypt í gólfið með hitalögnum í. Reynt var að rífa sem allra minnst, nota allt sem nýtilegt var. Suðurhlutinn með bogaloftinu er að mestu óhreyfður, nema falslisti við gólf var horfinn og því endurnýjaður. Loftbitar voru klæddir af og veggir klæddir með líkum panel og verið hafði. Forstofa í austur er að mestu óhreyfð. Gamla útihurðin var notuð en smíðaður nýr hurðarkarmur. Setja þurfti ný gólfborð á norðurhlutann en þau voru sett ofan á hin gömlu til að halda útliti og áferð neðra borðsins til haga. Allir gluggar voru smíðaðir nýir en þar sem slitur af gömlu gluggunum var ennþá til, var hægt að fara eftir þeim með stærðir, fræsingar og annað útlit. Þar með var glerið kíttað í fögin.
Gamli Vegamótabærinn er nú risinn úr öskustónni. Mörg hús að svipaðri gerð voru byggð á Dalvík og í Svarfaðardal, en þetta er það eina sem eftir er uppistandandi. Þetta hús er því góður fulltrúi, og reyndar sá eini, þeirra húsa sem byggð voru meira af nauðsyn en efnum þegar fólk fór að setjast að við Dalvíkina.