Hús vikunnar - Frón, talið elsta húsið á Dalvík

Hús vikunnar - Frón, talið elsta húsið á Dalvík

Grundargata 15, Dalvík (Íshúsið, seinna Ungmennafélagshús, því næst íbúðarhús Péturs Baldvinssonar, seinna nefnt Frón, þá í eign Þorvaldar Baldvinssonar, nú Grundargata 15.)

Frón, Grundargata 15 á Dalvík, var byggt 1896 og telst vera elsta húsið á Dalvík. Upphaflega var húsið einlyft timburhús með steyptri undirstöðu. Þakið var risþak með bárujárnsklæðningu. Breytingar hafa verið gerðar á húsinu í nokkrum áföngum en 1918 var því breytt í íbúðarhúsnæði sem það hefur verið upp frá því.

Húsið hefur mikið varðveislugildi og í skýrslu um húsaskráningu í Dalvikurbyggð 1. áfanga er lagt til að húsið sé verndað með hverfisvernd í deiliskipulagi.

(Saga Dalvíkur I bindi, bl 318)
Hinn 26. júlí 1896 ritar Jóhann oddviti á Hvarfi í dagbók sína: Hreyfing að vakna með íshúsbyggingu hér á Sandinum. Hafði Ísak Jónsson komið að álíta og segja fyrir því, sem helst virtist þurfa til fyrstu framkvæmda. Chr. Havsteen kaupstjóri ræður fastlega til slíkra framkvæmda og lofar að styrkja fyrirtækið að mun í bráðina frá Gránufélagi....”
Hinn 30. júlí ritar Jóhann enn: ”Fór ég seinnipart dags ofan á Sand til að ræða íshúsbyggingu með úthaldsmönnum”.
Hinn 24. nóvember er svo Íshúsið fullbyggt og tekið í notkun. Þó má vera, að skúr við það hafi verið reistur nokkru síðar, að minnsta kosti endurbættur og svo íshúsið, og vann Gísli smiður á Hofi að því. Hús þetta var mikið og veglegt að þeirrar tíðar mati, traust timburbygging, járnvarin, 15 x 9 álnir. Íshúsið gegnir um sinn miklu hlutverki í útgerðarsögu á þessum slóðum, en varð síðar um áratugaskeið aðalsamkomustaður Svarfdæla, eftir að það komst í eigu ungmennafélags þeirra og var þá skírt upp, nefnt Ungó í daglegu tali, 1909.

(Saga Dalvíkur III bindi, bl. 72)
Veturinn 1907 - 1908 kenndi Angantýr Arngrímsson á Dalvík og honum til aðstoðar var Stefán Jónsson, Brimnesi. Og var þá í síðasta sinn kennt samkvæmt hinu gamla fyrirkomulagi. Um áramótin hófst kennsla í Bindindisfélagshúsi, sem síðar nefndist Ungó í daglegu tali, síðar Frón. Byggt var við húsið haustið 1907, og lauk þeirri smíði að mestu um áramótin næstu á eftir. Fór skólahald á Dalvík síðan fram á húsi þessu rúman áratug.

(Skrá yfir hús og bæi á Dalvík 2. júní 1934. úr skýrslu Jarðskjálftanefndar)
Tvílyft tréhús á steyptum grunni. Engar skemmdir. Húsráðendur; Þorvaldur Baldvinsson og Sigríður Sigurðardóttir.


(Saga Dalvíkur III bindi, bl. 292 (Húsagerð og hýbýlakostur á Dalvík um 1936))
( l: 9,5 – b: 5,7 – h: 6,2) Timburhús á steinsteyptum grunni. Ein hæð, port og ris m/kvisti. Hæðinni skipt m/timburskilrúmi í tvö geymsluherbergi. Lofthæð skipt m/timburskilrúmum í fimm herbergi. Útbygging: ( l: 3,1 – b: 2,9 – h: 6,2) Úr sama efni.
Timburskúr: ( l: 5,7 – b: 4,2 – h: 2,5) Áfastur íbúðarhúsinu. Allt bárujárnsklætt. Kolaofnar til ljósa.

Saga
Húsið var byggt sem íshús 1896 af svarfdælskum bændum og úthaldsmönnum og var rekið sem slíkt fram yfir aldamótin 1900. Bindindisfélagið eignaðist þá húsið og notaði sem samkomuhús. Árið 1907 var byggt við húsið og það tekið undir kennslu þar til skólahald flyst upp í Ás haustið 1918. Ungmennafélag Svarfdæla eignaðist húsið 1909 og á það þar til Pétur Baldvinsson eignast það um 1918. Seinna kaupa Þorvaldur Baldvinsson og Sigríður Sigurðardóttir kona hans Frón. Baldvin Guðlaugur sonur þeirra bjó með foreldrum sínum og átti húsið með þeim þar til húsið var selt Kára Leifssyni 1963. Þá bjuggu þar einnig Gestur Sigurðsson og Jónína Sigurpálsdóttir. Baldvin Þorsteinsson bjó í Fróni til ársins 1969. Hann lést 1970. Hreiðar Leósson og Jóna Aðalsteinsdóttir keyptu af Kára 1981. Sesselja Benediktsdóttir og Ólafur Nílsson leigðu neðri hæð hússins af Kára og bjuggu þar í tvö ár eftir að Hreiðar og Jóna kaupa. Þau áttu húsið til 1994 en seldu þá dóttur sinni Elínu Ásu og hennar manni Ara Jóni Kjartanssyni húsið og eru þau eigendur hússins í dag.

Athugasemd um hús:
Þegar Hreiðar kaupir húsið er það algjör hjallur og hálf ónýtt. 1982 fær hann stækkun á lóð 5 m til vesturs. 1983 fæst leyfi til að skipta um glugga og klæðningu. Það er steyptur sökkull undir húsið en strax 1983 byrjar Hreiðar að endurbyggja húsið og steypir nýja botnplötu. Þegar forskalningin var brotin utan af húsinu kom í ljós, eins og grunur lék á um, að grindin var fúin og ónýt svo það þurfti að skipta henni nánast allri út. Hann fékk við úr gömlu bryggjunni sem var verið að rífa og notaði í burðarvirki. Allar raf- og vatnslagnir endurnýjaðar og húsið nánast endurbyggð frá grunni en þó eins og gamla húsið var. Húsið var klætt utan með harðtex-plötuklæðningu. Árið 1985 fékkst leyfi til að stækka bílskúr. Skúr norðan við húsið var stækkaður og byggður í sama stíl og sá sem fyrir var. Þakið var endurnýjað.


Eigenda og íbúaskrá

Þeir sem hafa nánari upplýsingar um húsið eru vinsamlegast beðnir um að snúa sér til byggðasafnsins Hvols.