Hollvinafélag Húsabakka stofnað

Síðast liðið fimmtudagskvöld var haldinn síðari kynningarfundur haustsins fyrir fyrirhugað náttúrusetur á Húsabakka. Fundurinn fór fram í sal Dalvíkurskóla og rakti Hjörleifur Hjartarson verkefnisstjóri þar þær hugmyndir sem liggja að baki náttúrusetrinu í máli og myndum.
Í máli hans kom m.a. fram að þessa dagana er unnið að skipulagningu gönguleiða og skoðunarhúsa í Friðlandi Svarfdæla. Þá er viðskiptaáætlun í smíðum en það er liður í undirbúningi stofnun sjálfseignarstofnunar um reksturinn. Verður hún vonandi komin á laggirnar fyrir áramót að sögn Hjörleifs.

Á fundinum á fimmtudagskvöldið var stofnað Hollvinafélag Húsabakka. Tilgangur þess er að „efla tengsl þeirra sem bera hag Húsabakka í Svarfaðardal fyrir brjósti og stuðla að uppbyggingu Náttúruseturs þar“ eins og segir í lögum félagsins. Hollvinafélagið mun jafnframt eiga beina aðild að sjálfseignarstofnuninni. Samþykkt var á fundinum að þeir sem skrá sig í félagið fyrir áramót teldust stofnfélagar. Þeim sem áhuga hafa á að gerast stofnfélagar er bent á að hafa samband við Hjörleif í síma 8618884 eða netfang hjhj@rimar.is .

Hjörleifur segist binda miklar vonir við að þeir fjölmörgu sem hafa taugar til Húsabakka og þá ekki síður þeir sem einfaldlega vilja auðga og bæta atvinnu- menningar og mannlíf í Dalvíkurbyggð gerist félagar í Hollvinafélagi Húsabakka og leggi með því sitt að mörkum til þess að aftur verði blómleg starfsemi á bakkanum. Hjörleifur segir að þó vissulega hafi margar aðstæður breyst upp á síðkastið og aðgangur að fjármagni sé takmarkaður nú um stundir haldi menn ótrauðir áfram undirbúningi fyrir náttúrusetrið. Raunar bjóði fnahagsástandið upp á marga nýja möguleika og ekki síður nýtt vinnulag þar sem menn flýta sér hægar við allar fjárfestingar en tíðkaðist í „góðærinu“. “Við höfum í rauninni allt til alls til að geta byrjað með skólabúðir á Húsabakka strax í vor og nýta jafnframt aðstöðuna fyrir okkar eigin skólabörn. Svo látum við tímann og góðan orðstír Húsabakka vinna með okkur“ segir Hjörleifur.