Hljómsveitin Copy/Paste í þriðja sæti í söngkeppni Samfés

Hljómsveitin Copy/Paste í þriðja sæti í söngkeppni Samfés

Síðastliðna helgi var haldin árleg Samfés hátíð í Laugardagshöllinni í Reykjavík. Á föstudagskvöldinu fór fram Samfésball/tónleikar þar sem fram komu Ingó og Veðurguðirnir, Jeff Who, 32C, Páll Óskar og fjöldi unglingahljómsveita. Óhætt er að segja að þarna hafi verið mikið stuð en um 4.700 ungmenni úr félagsmiðstöðvum landsins sóttu viðburðinn.


Á laugardeginum fór fram Söngkeppni Samfés. Þar voru 30 tónlistaratriði sem flytjendur færðu okkur á sviði og kepptu um hylli dómnefndar og áhorfenda. Keppnin var í beinni útsendingu á Skjá einum og einnig á Rás 2. Frábært framtak hjá Samfés og þessum aðilum! Okkar framlag var í höndum hljómsveitarinnar „Copy/Paste“ en hana skipa Gyða Jóhannesdóttir (bassi/söngur), Arinbjörn Guðmundsson, Dagur Halldórsson og Kristinn Hauksson (allir á gítar) og Valþór Hilmarsson (trommur). Þau fluttu frumsamið lag, „Skinkurokk“. Til að gera langa sögu stutta þá hrepptu þau þriðja sætið og voru vel að því komin. Það má segja að þetta hafi sett punktinn yfir i-ið hjá okkar ferðalöngum sem voru tæplega 60 talsins að þessu sinni. Ferðin gekk vel og snurðulaust fyrir sig og reyndust ferðalangar eins og alltaf félagsmiðstöðinni sinni og sveitarfélaginu til sóma.