Hjóladagur 23. maí

Hjóladagur 23. maí

Í dag var sameiginlegur hjóladagur Kátakots og Krílakots. Við byrjuðum á að hjóla öll saman upp að Krílakoti þar sem við settumst í brekkuna í garðinum þeirra um stund. Þar sungum við nokkur lög saman og byrjuðum svo að hjóla á fullu. Búið var að loka Böggvisbrautinni að hluta, frá Hólavegi að Karlsrauðatorgi, svo allir gátu hjólað hættulaust. Við fengum, eins og áður, lánuð umferðarskilti í skólanum sem búið var að setja upp og svo voru teiknaðar örvar sem sýndu börnunum í hvaða áttir þau áttu að hjóla. Svo fengum öll börnin að skoða slökkviliðsbílinn vel og vandlega líka því honum var lagt á planinu við hliðina á kirkjunni. Þetta gekk allt saman mjög vel fyrir sig þótt hitastigið hefði alveg mátt vera nokkrum gráðum hærra, en fáir kvörtuðu undan því og skemmtu sér konunglega sem skiptir auðvitað mestu máli. 5. bekkur í Dalvíkurskóla kom ásamt umsjónarkennara sínum og aðstoðaði okkur í dag (í stað Vetrarleikanna sem féllu niður) og stóðu þau sig öll með prýði. Við þökkum þeim kærlega fyrir aðstoðina. Nokkrir foreldrar komu einnig og voru með okkur sem var frábært, við þökkum þeim einnig fyrir komuna.

Myndir frá hjóladeginum má sjá á myndasíðunni okkar.