Heilsueflandi Dalvíkurbyggð - íbúafundur um lýðheilsustefnu

Fræðslu- og menningarsvið stendur fyrir íbúafundi um gerð lýðheilsustefnu Dalvíkurbyggðar fimmtudaginn 6. febrúar kl. 17:00-18:30 í Bergi.

Efni fundar:

  • Heilsueflandi Samfélag - Héðinn Svarfdal Björnsson, verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis kynnir verkefnið.
  • Vinna stýrihóps - Árni Jónsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi kynnir vinnu stýrihóps.
  • Heilsuhlé.
  • Heilbrigður lífsstíll - Sonja Sif Jóhannsdóttir, íþróttafræðingur, M.S. fjallar um jákvæða hugsun, mikilvægi þess að velja sér holla næringu og fleira.
  • Umræður og fyrirspurnir til fyrirlesara.

Heilsueflandi samfélag í Dalvíkurbyggð
Það er oft ekki fyrr en við missum heilsuna eða lendum í slysi að við áttum okkur á hvers virði það er að hafa góða heilsu. Í áratugi hefur verið rætt, bæði á alþjóðavettvangi og hér á landi, um aðgerðir til að koma í veg fyrir sjúkdóma og slys. Á sumum sviðum hefur verið unnið lengi að forvörnum, svo sem gegn reykingum, og þar hefur mikið áunnist. Fagráð á vegum Embættis landlæknis gaf út skýrslu um áherslur til heilsueflingar landsmanna. Þar eru ríki og sveitarfélög hvött til að marka sér heilsueflandi stefnu og til samvinnu við aðila vinnumarkaðarins , áhugasamtök, og einstaklinga. Sem dæmi um verkefni á vegum Embættis landlæknis er; Þjóð gegn þunglyndi , Heilsueflandi grunnskóli og framhaldsskóli og nú síðast Heilsueflandi samfélag. Þar kemur Embætti landlæknis inn í verkefni á vegum sveitarfélaga sem vilja marka sér heilsueflandi stefnu. Í mars á síðasta ári tilnefndi Byggðaráð Dalvíkurbyggðar fjóra aðila í nefnd um gerð lýðheilsustefnu fyrir Dalvíkurbyggð. Þessi nefnd hefur í samstarfi við Embætti landlæknis undirbúið stefnu og sett fram hugmyndir um hvernig við komum á Heilsueflandi samfélagi hér í Dalvíkurbyggð.


Hvað þarf til að viðhalda góðri heilsu? Hvernig samfélag viljum við byggja upp og búa í ? Hvað getur sveitarfélagið gert? Hvað geta fyrirtækin gert ? Hvað erum við að gera vel nú þegar? Hvað með andlega heilsu? Síðast en ekki síst hvað get ég gert sem einstaklingur?

Leitað verður svara við þessum spurningum á kynningarfundi í Bergi þann 6.febrúar kl. 17.00, þar sem farið verður yfir verkefnið og hlustað á fyrirlestra og í lokin verða umræður. Við viljum hvetja alla til að mæta og láta í sér heyra.


Gefðu þér tíma til að huga að heilsunni, hún er eitt það dýrmætasta sem við eigum. Þess vegna berum við hvert fyrir sig ábyrgð á að sinna henni á hverjum degi. Þannig bætum við heilsuna eða viðhöldum henni og aukum stöðugt lífsgæðin. Það er aldrei of seint að byrja á góðum venjum til heilsueflingar.


Stýrihópur;
Árni Jónsson, íþrótta– og æskulýðsfulltrúi Dalvíkurbyggðar.
Harpa Rut Heimisdóttir, íþróttafræðingur, M.S.
Heiða Hringsdóttir, hjúkrunarfræðingur.
Jón Ingi Sveinsson, fulltrúi úr íþrótta– og æskulýðsráði.