Heiðursverðlaun Íþrótta- og æskulýðsráðs Dalvíkurbyggðar

Atli Viðar og faðir hans Björn Friðþjófsson. Mynd fengin af www.dalviksport.is
Atli Viðar og faðir hans Björn Friðþjófsson. Mynd fengin af www.dalviksport.is

Íþrótta- og æskulýðsráð Dalvíkurbyggðar veitti Atla Viðari Björnssyni, heiðursverðlaun ráðsins á hátíðarfundi 17. janúar sl.

Eftirfarandi texti er samantek sem lesin var upp við hátíðlega athöfn sem haldin var í Menningarhúsinu Bergi 17. janúar sl. þegar viðurkenningin var veitt:

Heiðursviðurkenningu Íþrótta- og æskulýðsráðs að þessu sinni fær knattspyrnumaðurinn Atli Viðar Björnsson. Síðastliðið haust lagði Atli Viðar skóna á hilluna eftir glæsilegan feril sem hófst hér á Dalvík 1986. Fótboltann stundaði hann af miklum krafti samhliða skíðum.  Árið 1996 lék hann sinn fyrsta leik með Dalvík í meistaraflokki, þá 16 ára gamall í þriðju efstu deild. Ferill Atla má segja að hafi rúllað af stað 1999 þegar hann skoraði 11 mörk í 1. deild fyrir Dalvík og sló hann svo í gegn ári seinna þegar mörkin urðu 12. Logi Ólafsson þjálfari FH á þeim tíma hreifst af markavélinni frá Dalvík og gerði sér ferð norður til að sannfæra þá feðga Atla og Björn Friðþjófsson að sunnan heiða væru spennandi tækifæri fyrir tvítugan dreng. 18 árum eftir fund á Hótel KEA stendur Atli uppi sem einn farsælasti leikmaður efstu deildar frá upphafi. Töframaðurinn á Dalvík eins og hann var kallaður í Pepsi mörkunum skilur við markaskóna sem:

-Þriðji markahæsti leikmaður í sögu efstudeildar með 113 mörk

-sjöundi leikjahæsti leikmaður í sögu efstu deildar og leikjahæsti leikmaður FH í efstu deild með 264 leiki.

-Alls lék Atli 335 deildarleiki og skoraði í þeim 153 mörk.

- Einnig lék hann 33 evrópuleiki og gerði 7 mörk og þá eru 4 A landsleikir á ferilskránni

- 8 íslandsmeistaratitlar

- 1 bikarmeistaratitill

- Ásamt gull, silfur og bronskór efstu deildar. 

Atli Viðar er einstakur íþróttamaður og fyrirmynd. Ég fullyrði að fáir leikmenn hafi verið jafn dáðir af stuðningsmönnum annara liða og Atli. Ekki er það bara hæfileiki hans að skora mörk heldur einnig karakterinn og frábæra framkoma innan sem utan vallar. Sem gott dæmi að þá fékk hann eingöngu 19 gul spjöld í þeim 355 deildarleikjum sem hann spilaði og aldrei var honum sýnt það rauða. Aldrei var Atli gripinn við að sýna af sér óheiðarlegan leik eða framkomu og þrátt fyrir erfið meiðsli í tvígang kom hann alltaf til baka tvíefldur.

Atli er íþróttamaður sem við Dalvíkingar erum gríðarlega stolt af og er gríðarlega vel að því kominn að hljóta þessa heiðursviðurkenningu í dag fyrir afrek sín á sviði knattspyrnunar.

 

Íslensk knattspyrna 2018
https://svarfdaelasysl.com/2013/09/28/dalviskur-toframadur-a-tokkum/#more-1567

Dalvík Sport
https://dalviksport.is/magnadur-ferill-atla-vidars-a-enda/