Haustmót blakfélagsins Rima

Góð þátttaka var á haustmóti blakfélagsins Rima um síðustu helgi. Þetta er í þriðja sinn sem mótið er haldið og hefur þátttaka aldrei verið jafn mikil eða 6 karlalið og 19 kvennalið sem spiluðu í þremur deildum. Fyrstu leikir hófust klukkan 8:00 og mótinu lauk um klukkan 18:30. Íþróttamiðstöðin iðaði af lífi á laugardaginn og ánægjulegt að sjá hve margir bæjarbúar litu þar við til að kíkja á einn og einn leik. Rimar sendu eitt karlalið og þrjú kvennalið til keppni, þar á meðal heilt kvennalið sem skipað var nýliðum. Karlarnir héldu heiðri félagsins uppi á mótinu og urðu í 2. sæti en kvennaliðin náðu ekki verðlaunasætum. Fámennt er í hópi karlblakara og eru áhugasamir karlar því sérstaklega hvattir til að koma á æfingar sem eru fyrir bæði kynin í íþróttamiðstöðinni á mánudögum og miðvikudögum klukkan 20:00-21:30.