Hátíðarræða sveitarstjóra í Bergi - 17. júní

Hátíðarræða sveitarstjóra í Bergi - 17. júní

Kæru þjóðhátíðargestir.

Gleðilega þjóðhátíð okkar Íslendinga. Í dag er 17. júní og mig langar til að fjalla um hvað er íslenskt, hvað gerir okkur að Íslendingum, íslenskri þjóð.

Íslenskan, móðurmálið. Mörgum útlendingum finnst íslenskan erfið, flókin, torskilin og lítið skyld öðrum málum. Í okkar eyrum hljómar vel töluð íslenska eins og fegursti fuglasöngur. Frændi minn sunnan af landi var nýkominn norður í nám í Háskólanum á Akureyri. Honum fannst fyrirlesarinn tala svo skýra og góða íslensku, líklega útlendingur sem hefði náð málinu með eindæmum vel. Kvað svo fast að orðum, raddaði og hljómaði á allan hátt eins og Íslendingur. Þarna var á ferðinni Hermína okkar Gunnþórsdóttir sem talar eina fallegustu norðlensku sem maður heyrir. Þarna koma skýrt fram mismunandi blæbrigði íslenskunnar og hversu breytilega hún hljómar eftir því hvar maður er á landinu. En íslenskan er klárlega eitt af því sem gerir okkur að þjóð.

Íslenski fáninn er þjóðarstolt og það er gleðilegt að sjá hann fá útbreiddari notkun meðal þjóðarinnar á íþróttamótum. Fólk er orðið ófeimnara með að nýta fánann þrátt fyrir mjög strangar reglur um notkun hans. Það gerist heldur ekki öllu íslenskara en að klæðast þjóðbúningnum í hvaða mynd sem hann er. Herrabúningarnir gömlu og nýju, peysuföt, kvenbúningurinn frá ýmsum tímum eða skautbúningurinn. Að sjá fólk klæða sig upp á með þessum séríslenska hætti er hátíðlegt. Og þeir sem skarta íslenska búningnum segja ævinlega að þeim hafi aldrei fundist þeir hátíðlegri en einmitt þá. Og við þekkjum þetta hér, við horfum aðdáunaraugum á þá sem mæta á 17. júní í íslenskum búningum. Og hvern langar ekki einmitt á svona stundum að eiga slíka gersemi og skarta henni.

Sumt í þjóðlífinu er íslenskara en annað. Þorramatur og þorrablót. Göngur og réttir. Hangikjöt og laufabrauð á jólum. Íslenskar hannyrðir og lopapeysan okkar góða. Hákarl og brennivín. Eftir að hafa smakkað slíkar veigar hjá Elvari í Ektafiski á Hauganesi er maður formlega orðinn íslenskur víkingur að mati eins af nýjustu Íslendingunum, tengdadóttur okkar frá Kólumbíu. Enda með skírteini sem meðlimur í hákarlaklúbbnum upp á arminn.

17. júní er þjóðhátíðardagurinn okkar. Í Dalvíkurbyggð hefur dagskráin á 17. júní verið með hefðbundnu sniði um árabil. Íslenski fáninn blaktir við hún út um allan bæ. 17. júní hlaupið um morguninn er skemmtileg hefð. Skrúðganga og dagskrá við Berg, hátíðarræða, fjallkonan, skemmtiatriði og karamellurigning. Leikir í kirkjubrekkunni og vatnsrennibrautin. Simbi með hestana að teyma undir börnunum, hátíðarkaffi í safnaðarheimilinu. Og svo sundlaugarfjörið í lok dags með grilli og gamanheitum. Það er einhvern veginn notalegt að ganga að dagskránni sem vísri. Hefðirnar eru sterkar og maður gleðst yfir því að upplifa daginn með svipuðu sniði ár eftir ár. Í heimahúsum gleðjast fjölskyldur með nýútskrifuðum stúdentum, þessi dagur er sannarlega samverudagur fjölskyldunnar og mikill gleðidagur.

Út um allt sveitarfélag er líf og fjör og mikið að gerast í góða veðrinu. Mig langar til að vitna í færslu Júlla Júl 15.júní á facebook og geri það hér með hans leyfi.

Tilvitnun hefst:  Fallegt veður...alltaf eitthvað í gangi fyrir utan skrifstofugluggann og í næsta nágrenni...og aðeins lengra. Á Hauganesi er sólarströndin, pottar og gleði, vikulegar gönguferðir með ferðafélagi Svarfdæla, Bjórböðin að gera sig, súrdeigsbakstur á Böggvisstöðum hjá Böggvisbrauði, strandblaksmót á nýju strandblaksvöllunum, keppt í þremur deildum í gær, fólk í sundi, fólk á fjöllum, kvennahlaupið, fólk á göngu á sandinum, fólk að veiða á bryggjunni, síðasti dagur í þyrluskíðun hjá Bergmönnum, Allt að gerast í Loppunni í Hólavegi 15, fríar hjólaviðgerðir á pallinum í Bergi í gær, málverkasýning Veigu í Menningarhúsinu, Menntaskólaútskriftir og hittingar, Sveinn að gera staura í kring um pallinn, Dalvík/Reynir að keppa á Skaganum á morgun, lömbin hlaupandi út um allt, fólk að grilla, fólk að chilla og svo má ekki gleyma ALVÖRU sveitaballi í kvöld á Höfðanum Svarfaðardal....Brosum, elskum, njótum og verum glöð.   – tilvitnun lýkur.

Í undirskrifum undir færslunni bætist í töluna. Fyrsta mót sumarsins á Arnarholtsvelli hjá Golfklúbbnum Hamri og opið gæðingamót á Hringsvellinum. Svo er enn hægt að bæta við „gæsapartýhópunum“ sem fóru vítt og breitt um sveitarfélagið þennan dag og tíðum ferðum í hvalaskoðun og sjóstöng frá höfnum Dalvíkurbyggðar. Þetta er alls ekki tæmandi listi en sýnir glöggt hversu frjóu og lifandi sveitarfélagi við lifum í.

Á hinn bóginn er sveitarfélagið Dalvíkurbyggð afskaplega friðsælt ef maður er á ferli seint á kvöldin eða eldsnemma á morgnana. Þá heyrist stundum ekkert, alger friður. Í mesta lagi seiðandi fagur fuglasöngur.

Þetta er lífið og þetta er Dalvíkurbyggð í dag. Takk fyrir mig og njótið dagsins.