Hátíðarræða 17. júní 2017 - Björk Hólm Þorsteinsdóttir

Hátíðarræða 17. júní 2017 - Björk Hólm Þorsteinsdóttir

Ágætu hátíðargestir

Hér í skrúðöngunni á undan hljómaði lag sem eflaust flestir þekkja: „Hæ hó, jibbí jei og jibbí, jei – Það er komin 17. júní!“  - og það er rétt, í dag er einmitt sá dagur. Það er lýðveldisafmæli Íslands og það sem meira er, ég á 10 ára útskriftarafmæli frá Menntaskólanum á Akureyri. Trúiði þessu.  

Þó mér þyki það vissulega tilefni til, þá erum við reyndar ekki saman komin hér í dag til að fagna útskriftarafmæli mínu heldur fögnum við hér sameiginlegum afmælisdegi okkar allra; Þjóðhátíðardegi íslendinga.

Það var nú víst þannig að fyrir 73 árum síðan, árið 1944 – var lýðveldi Íslands stofnað á Þingvöllum og okkur valinn fyrsti forseti lýðveldisins.

Það var líka fyrir nákvæmlega 73 árum sem Dalvíkingar, Svarfdælingar og aðrir nærsveitungar fögnuðu lýðveldisstofnuninni með pompi og pragt við Sundskála Svarfdæla. Sundskálinn hafði þá lengi verið samverustaður hreppsbúa á tillidögum og á hinum ýmsu mannamótum. Ég veit þetta með vissu af því að á Héraðsskjalasafni Svarfdæla má finna ótal ljósmyndir sem vitna um þessi veglegu hátíðarhöld við sundskálann og segja má að þarna hafi orðið til ákveðin hefð um tíma.

Já, þær eru margar hefðirnar sem einkenna þennan dag, - 17. júní.

Hefðir vísa gjarnan í fortíðina.

Eitthvað sem okkur finnst jafnvel alltaf hafa verið.

Eitthvað sem okkur þykir jafnvel nauðsynlegt að hafa.

En ár hvert verða líka til nýjar hefðir, opinberar jafnt sem persónubundnar.

En hvað er hefð?  Þarf hefðin alltaf að vera eins? Þarf hefðin alltaf að vera allt að því íhaldssöm og snúa að einhverju sem við teljum gamalt. Eitthvað frá gömlu góðu tímunum. Eitthvað fyrir tíma snjallúra og spinnera (eða þyrilsnælda eins og það kallast víst upp á íslenskuna).

Finnst okkur það minni hefð eða verri að fá sér kandíflos og gasblöðrur, og hoppa um og skoppa í loftkastala – frekar en t.d. það að hlusta á fjallkonuna flytja sitt ávarp - eitthvað sem ég ímynda mér að flestir Íslendingar telji órjúfanlega og allt að því nauðsynlega hefð á 17. júní?

Gæti verið að hið síðarnefnda falli mögulega betur að þeirri ímynd sem við sem byggðarlag eða jafnvel þjóð – kjósum að halda uppi.  

Fræðileg skilgreining á hefð segir m.a. að hún sé eitthvað með óbreytanlegum kjarna sem flyst á milli kynslóða og er oft litin sem eitthvað náttúrulegt fyrirbæri – við könnumst öll við frasann: „jahh svona hefur þetta bara alltaf verið

En þó eitthvað hafi alltaf verið á einn eða annan hátt – þýðir það að það sem um ræðir sé hafið yfir gagnrýni eða ákall um breytingar?

Einu sinni var tíðin sú að konur höfðu ekki rétt til að kjósa. Einu sinni þótti það ekki við hæfi að karlar elduðu mat, og hvað þá að þeir ynnu fyrir sér sem leikskólakennarar. – Það var ekki hefð fyrir því... það var ekki venjan...

Í hefðinni getur nefnilega legið gríðarlegt menningarlegt vald. Vald sem getur ákvarðað lífshætti okkar, viðmið og gildi.

Samfélög skilgreina sig oft út frá hefðum og við sem samfélag veljum að muna og halda í heiðri ákveðnum hlutum á meðan við veljum að gleyma öðrum. Þetta hefur oft gengið undir heitinu sögulegt minni.

Einstaka sinnum gerist það svo að draugar fortíðarinnar eru dregnir upp á yfirborðið og samfélögin standa frammi fyrir nýju vali. Á að gleyma áfram eða á að muna. Í hvert sinn sem þetta gerist gengur samfélagið í gegnum ákveðna endursköpun. Þannig getum við talað um að við sem samfélag eða þjóð séum í stöðugri mótun. Við höfum nefnilega ekkert endilega alltaf verið svona – ekki nákvæmlega eins og við erum akkúrat núna.

Þegar rökræður eru felldar með vísan í hefð - „svona hefur þetta alltaf veriðsvona ætti þetta þess vegna áfram að vera“ - mætti jafnvel túlka hefðina sem útilokandi á köflum og allt að því heftandi fyrir ákveðna hópa samfélagsins.

Sem samfélag þá notum við hefðir til að staðsetja okkur innan ákveðins ramma sem rúmar sjálfsmynd okkar sem hópur og sem þjóð.

Hverjir tilheyra þá okkar hópi? Okkar þjóð? Hvað er það sem gerir mann eða konu að Íslendingi?

Eru það kannski raðir fyrir utan bandarískar stórkeðjur? Er það samstaða og kærleikur sem myndast í kringum stórmótum í íþróttum?

Eða eru það kannski báðir þessir þættir og margfalt fleiri til?

Á hálfrar aldar afmæli íslenska lýðveldisins stigu fram leiðtogar þess tíma og veltu fram spurningum um það hvað gerði Íslendinga að þjóð. Flestir voru sammála um að tungumálið þjónaði þar veigamiklu hlutverki og væri það sem tengdi Íslendinga saman og gerði þá að sérstökum hópi í samfélagi veraldarinnar.

Tungumálið var sagt vera það sem varðveitti menningararf fyrri alda ásamt því að tengja okkur við fortíðina og landið sem við byggjum.

Þessa orðræðu hafa fræðimenn sagt vera lýsandi fyrir hefðbundin viðhorf Íslendinga til þjóðernis síns. Jafnframt hefur verið bent á að þessi orðræða hafi hvorki verið nýlunda á þessum tíma né hafi hún fyllilega runnið sitt skeið.

Mér finnst ég oft heyra raddir þess efnis að innflytjendur á Íslandi ættu að vera skikkaðir til þess að læra íslensku þar sem tjáning á móðurmáli Íslendinga sýni nauðsynlegan vott um viðleytni til þess að tilheyra og vera virkur þátttakandi í samfélagi.

Ef við göngum út frá því að þetta sé viðtekin hugmynd í samfélaginu gæti það hugsanlega gefið okkur vísbendingar um hvað einstaklingur þarf að bera til þess að geta talist til okkar þjóðar. Í þessu tilviki þyrfti hann þá að tileinka sér tungutak okkar þjóðar og þá fyrst gæti hann flokkast sem einn af „okkur“.

En er það svo einfalt?

Við lifum í heimi þar sem eilíf tvíhyggja markar líf okkar  - „við“ skipum einn flokkinn og „hinir“ skipa hinn. Okkar flokkur dregur með sér táknmyndir og eiginleika sem okkur þykir skilgreina og einkenna okkar hóp á meðan við aðgreinum okkur frá háttarlagi og venjum hinna.

Þessi aðgreining á sér samt líka stað þar sem allir tala íslensku.

Eftirsóknaverðar táknmyndir í samfélaginu taka vissulega reglulegum breytingum í gegnum tíðina. Þær breytast í menningunni sem breytist með konum og mönnum.  Menning er nefnilega, rétt eins og hefðin, mannlega ákvörðuð. Hún er ekki greipt í stein - hún á hvorki að vera svona né hinsegin. Menning er mannlegur tilbúningur. Menning er sameiginleg smíð okkar allra.

En eitt langar mig að árétta – því þið megið alls ekki misskilja mig. Hér er ég ekki að segja að hefðin sem slík sé slæm, alls ekki.

Hefðir geta þvert á móti þjappað fólki saman, gefið tilgang og hlutverk þar sem einstaklingur verður partur af einhverju stærra en hann sjálfur.

Síðast í gær, 16. júní var ég stödd í höllinni á Akureyri að júbilera með stúdentum sem áttu allt frá 1 árs útskriftarafmæli upp í 60-70 ára og sennilega eldri. Þar voru sungin sömu lögin - sem allir lærðu - sömu klöppin - sem allir klöppuðu - og þarna í þessum sal varð til ákveðin sameining.

Þarna vorum við saman komin. Ókunnug en þó kunnug af því að við áttum allavega þetta eitt sameiginlegt. Við höfðum öll einhverja sambærilega reynslu. Reynslu sem batt saman alla viðstadda í einn og sama hópinn, sama hversu ólíkt við vorum innbyrgðis. Þarna þetta kvöld, þessa stund, vorum við öll MA-ingar.

Það er öllum nauðsynlegt að finnast þeir tilheyra. Ætli það sé ekki þess vegna sem við erum sífellt að draga þessi ósýnilegu mörk á milli okkar og hinna.

...En kannski, bara kannski - þá þurfum við stundum að staldra við.

Staldra við og spyrja okkur gagnrýna og áleitna spurninga.

Þenja mörkin, fella niður veggi og hindranir og endurskoða sumt af því sem við höfum hingað til álitið sem náttúrulegt fyrirbæri.

Endurskoða það sem hefur bara alltaf verið svona.

 

Takk fyrir mig og gleðilega þjóðhátíð.

Björk Hólm Þorsteinsdóttir