Hálft tonn af fræðibókum

Hálft tonn af fræðibókum

Náttúrusetrinu barst nú á dögunum stór sending fræðibóka á sviði náttúrufræði og sögu. Alls var þarna á ferðinni hálft tonn af bókum í 43 pappakössum.

  Bókasafn þetta var áður í eigu Jóns Gauta Jónssonar landfræðings og menntaskólakennara en hann lést fyrir aldur fram árið 2007. Jón Gauti var sístarfandi vísindamaður og óvenju fjölvís og ber bókasafn hans þess glögglega merki. Hann var jafnvígur á jarðvísindi,  náttúrufræði og sögu og einlægur áhugamaður um íslenska menningu og tungu. Hann var einnig  fræðari af guðs náð og liggur eftir hann drjúgt höfundarverk í formi kennslubóka um jarðvísindi, náttúrufræði og sögu, greinar og útvarpsþættir sem margir minnast því þeir voru í frumlegir og skemmtilegir, t.d. þættirnir um Ódáðahraun og  þættirnir „Þetta helst“ þar sem fréttamenn ríkisútvarpsins þuldu helstu féttir hverrar aldar Íslandssögunnar eins og um nýjustu féttir væri að ræða. Síðasta verkefni Jóns Gauta á ritvellinum var árbók Ferðafélags Íslands 2006 um æskusveitina Mývatnssveit.

Jón Gauti átti sæg bóka um náttúrufræði og sögu og skipulagði bókasafn sitt af vísindalegri nákvæmni. Þar er að finna margar gersemar. T.d. fjölda árbóka og tímarita á sviði sögu og náttúrufræði vandlega bundið inn, s.s. Náttúrufræðinginn, Skírini og Árbækur ferðafélags Íslands. Einnig ýmis grundvallarit í jarðfræði náttúrufræði, landfræði  og sögu Íslands. handbækur um útivist og ferðamennsku,  staðfræði og landakort. Óhætt er að segja að bókasafn Jóns Gauta sé einhver besti grunnur  sem hugsast getur fyrir  fræðibókasafn á Náttúrusetri að Húsabakka.