Haldnar voru kynningar og málþing á laugardaginn

Kynningar á málefnum Dalvíkurbyggðar fóru fram síðastliðinn laugardag í tilefni lýðræðisviku sveitarfélaga í Evrópu. Aðalskipulag Dalvíkurbyggðar var kynnt en það er nú í umsagnar meðferð þar sem fólk getur komið fram með ábendingar um hvað eina sem betur mætti fara.

Kynning var á uppbyggingu íþróttamiðstöðvar við Sundlaug Dalvíkur og framtíðaráformum um nýtingu gamla íþróttahússins og Víkurrastar. Gert er ráð fyrir að matsalur Dalvíkurskóla verði í gamla íþróttahúsinu og skólavistun verði þar sem áhorfendabekkir eru nú.

Kynning var á nýrri mannréttindastefnu Dalvíkurbyggðar sem félagsmálaráð og félagsmálasvið hafa unnið að undanfarið.

Kynning var á ungmennaráðum og þeirra hlutverkum.

Málþing var um lífrænan landbúnað þar sem Ólafur R. Dýrmundsson ráðunautur Bændasamtakanna, Gunnar Á Gunnarsson frá Vottunarstofunni Tún, Helga Þórðardóttir sauðfjárbóndi á Mælifellsá í Skagafirði og Anna Dóra Hermannsdóttir yogakennari á Klængshóli í Skíðadal deildu þekkingu sinni og reynslu af lífrænum landbúnaði.
Helstu niðurstöður málþingsins voru að ekki munu allir geta fengið vottun um lífræna framleiðsluhætti en þeir sem það geti muni njóta ávinnings af vottuninni þegar fram í sækir. Það er misbrestur í því af hálfu hins opinbera að styðja við þá breyttu búskaparhætti sem þurfa að eiga sér stað í átt til lífræns landbúnaðar. Í Evrópu og ekki síðs á norðurlöndunum er stutt betur við bakið á þeim bændum sem vilja hverfa aftur til lífræns landbúnaðar en í máli Ólafs kom fram að allt fram til 1960 hafi landbúnaður á Íslandi verið meira og minna lífrænn. Helga er nú í haust að fá 20% hærra afurðaverð en þeir sem eru með hefðbundna sauðfjárrækt. Hún fullyrðir einnig að dregið hafi úr kostnaði við aðföng. Gunnar taldi að í flestum tilvikum ættu tvö ár að vera nóg fyrir aðlögun í lífræna ræktun fyrir jörðina og þrjú ár fyrir gripi sem geta verið í aðlögun á sama tíma og jörðin. Anna Dóra sagði ferðamenn sem sækja hana heim að Klængshóli meta það mikils vera á jörð sem væri lífrænt vottuð. Hún sagði það einnig vera reynslu sína að þegar fólk byrjaði að neyta fæðu sem væri lífræn þá hyrfu margir hvillar sem höfðu verið að hrjá einstaklinga jafnvel til margra ára.

Kvenfélagið Tilraun seldi dýrindis vöfflur og kaffi og var mæting á þessa viðburði sæmileg.