Hætt að henda timbri í Höfðann - aðeins tekið á móti garðaúrgangi

Ákveðið hefur verið að hætta að taka á móti timburúrgangi í Höfðanum og urða hann þar. Þess í stað er tekið á móti öllu timbri á gámasvæðinu, og verður því ekið í burtu til endur vinnslu.


Jón Arnar Sverrisson, garðyrkjustjóri segir að til hafi staðið að kurla timbrið sem tekið var á móti í Höfðanum, en ekkert fyrirtæki hafi svo fengist til að taka verkið að sér, og því hafi timbrið sem á svæðið var komið verið urðað og móttöku hætt. Einnig hafi umgengni á svæðinu verið slæm, og fólk hafi ekki bara hent timbri heldur hverju sem var.


Jón Arnar segir að áfram verði tekið við garðaúrgangi í Höfðanum, enn um sinn að minnsta kosti, en þá er eingöngu átt við garðaúrgang og fólk minnt á að tæma plastpoka og önnur ílát sem það notar undir úrganginn.