Gulli Ara með sýningu í Bergi – síðustu sýningardagar

Gulli Ara með sýningu í Bergi – síðustu sýningardagar

Nú fer hver að verða síðastur að skoða sýningu Gulla Ara sem nú stendur yfir í Bergi menningarhúsi á Dalvík. Sýningin samanstendur af Álfabókunum sem hann er orðinn þekktur fyrir og áður ósýndum málverkum frá ýmsum tímum.

Álfabækurnar samanstanda af litlum bókaskápum með örsmáum eftirgerðum af íslenskum sem erlendum bókum. Hver bókaskápur er heimur út af fyrir sig og þar búa bæði skáld og kynjaverur. Í hverju myndverki leynist lítill verndarálfur, ártal og nafn höfundar. Árhorfandinn þarf því að staldra við, gefa sér góðan tíma og leyfa ímyndunaraflinu að fara á flug.

Málverkin á sýningunni eru af allt öðrum toga en Álfabækurnar og skapa ákveðna andstæðu við þær. Þó má segja að málverkin segi ákveðna sögu, enda er Gulli Ara rithöfundur í grunninn, og að þessi frásagnagleði málverkanna og Álfabókanna sé það sem tengi sýninguna saman. Þannig er sýningin í senn andstæð og samstæð.

Um listamanninn

Gulli Ara skrifaði sína fyrstu skáldsögu Vindur, vindur vinur minn 25 ára gamall og hefur síðan sent frá sér skáldsögur, leikrit og ljóð auk tveggja bóka um Kaupmannahöfn. Verk hans hafa notið mikilla vinsælda og verið verðlaunuð. Hann hefur því verið þekktari sem rithöfundur en myndlistamaður þótt hann hafi alla tíð unnið að myndlist jöfnum höndum með skrifunum. Þessi grunnur hans sem rithöfundur hefur því haft mikil áhrif á hann sem myndlistamann og hvort sem hann málar eða býr til Álfabækur er hann alltaf að segja einhverjar sögur.