Grimmsævintýri – sérstök barnadagskrá

Þessa dagana vinna 15 nemendur úr 9. og 10. bekk Dalvíkurskóla að uppsetningu á barnadagskrá, sem unnin er upp úr verkum Grimmsbræðra. Dagskrá þessi saman stendur af 5 ævintýrum : Rauðhetta og Úlfurinn, Hans og Gréta, Kiðlingarnir 7, Rumputuski og Gullgæsin. Arnar Símonarson hefur unnið handrit upp úr þessum verkum og hann er einnig leikstjóri. Pétur Skarphéðinsson sér um ljósahönnun og þeir Kristján Guðmundursson og Aron Birkir Óskarsson sjá um leikmynd og hljóð. Um er að ræða sérstakt samstarfsverkefni milli Leikfélags Dalvíkur og Dalvíkurskóla.

Á síðasta ári settu unglingar í Dalvíkurbyggð upp unglinga leikverkið "Þú ert í blómalífsins, fíflið þitt !"eftir Davíð Þór Jónsson og unglingadeild Leikfélags Hafnarfjarðar við geysigóðar viðtökur. Nú hinsvegar leika unglingar sérstaklega fyrir börn. Að sögn Arnars eru hér valinkunn og þekkt ævintýri á ferðinni og þau sett upp í skemmtilega sögugerð. Æfingar á verkinu hafa staðið yfir frá því í byrjun janúar og stefnt er að frumsýningu sunnudaginn 24. febrúar næstkomandi. Fyrirhugað er að hafa 9 sýningar á þessuv erki í Ungó. Verkið er um 50 mínútna langt í flutningi.

Nú er um að gera fyrir alla að skella sér í leikhús og njóta þess sem þar er boðið upp á.

Hér er hægt að skoða tímasetningar leiksýninga