Grænfánanum flaggað á Krílakoti.

Grænfánanum flaggað á Krílakoti.

Frá Krílakoti leikskóla:

Krílakot er Grænfánaskóli. Við höfum á þessu ári verið að vinna með 2 þemu. Á yngri deildunum þremur er unnið með átthagana og á eldri deildunum höfum við verið að vinna með hnattrænt jafnrétti.

Krílakot er stolt af því að flagga Grænfánanum í dag, föstudaginn 22. febrúar og af því tilefni viljum við aðeins kynna hvað það er sem við höfum verið að gera og það sem er framundan hjá okkur.

Skýjaborg er að vinna með átthaga og úrgang. Þau æfa sig að flokka dót og annað, sem er fyrsti vísir af því að læra flokkun. Þau læra hugtök tengd stofnunum í sveitarfélaginu með því að hengja upp myndir í kennslustofunni auk þess að fara í vettvangsferðir.

Sólkot er að vinna með átthagana og er að vinna nærumhverfisverkefni. Þau ætla að skoða bæinn, taka myndir af heimilum og læra þannig á nærumhverfið með gönguferðum og umræðum. Einnig er gert plakat á deildinni þar sem myndir verða tengdar við kort af Dalvík og nágrenni.

Mánakot er að vinna með átthagana og vinnur verkefni um sveitarfélagið okkar. Þau fara í gönguferðir, týna rusl, taka myndir af sér fyrir utan húsin sín. Verkefnið tengist inn á marga námsþætti eins og læsi og stærðfræði við börnin, skoða í leiðinni litina, húsnúmerin, stærðfræðihugök eins og fyrir framan, ofan við, stærra en o.s.frv. auk þess að læra um helstu stofnanir og hvað fer fram í þeim.

Kátakot er að vinna með hnattrænt jafnrétti og er að ræða matarsóun, vatnsnýtingu og rafmagnsnotkun í tengslum við önnur lönd. Verkefnið snýr að því að kynna fyrir þeim mikilvægi þess að nýta auðlindirnar sparlega.

Hólakot er einnig að vinna með hnattrænt jafnrétti og er að vinna verkefni sem miðar að því að kynna sér aðbúnað ólíkra fjölskyldna og ræða hnattrænt jafnrétti út frá misrétti og sanngirni. Verkefnin snúast um að skoða myndir af ólíkum fjölskyldum og húsakynnum og rökræða þær, einnig að skoða hvernig þau taka á misskiptingu innan hópsins.

Allar deildir hafa að leiðarljósi að tengja verkefnin við einkunarorð skólans; gleði, sköpun og þor. Einnig höfum við til hliðsjónar að vinna í leiðinni í anda uppeldis til ábyrgðar og heilsustefnunnar. Mikið kapp er lagt á að auka við orðaforða barnanna í leiðinni, tengt því verkefni sem um ræðir á hverri deild.

Svona er leikskólastarfið skemmtilegt, fjölbreytt og spennandi.

Kveðja frá Krílakoti.

Krílakot   Krílakot