Göngur og réttir á tímum Covid-19

Mynd frá Héraðskjalasafni Svarfdæla
Mynd frá Héraðskjalasafni Svarfdæla

Í ljósi þess að göngur og réttir eru á næsta leiti í sveitarfélaginu vilja stjórnendur ítreka eftirfarandi tilmæli sóttvarnayfirvalda:

- Áhersla er lögð á að hver og einn beri ábyrgð á eigin athöfnum og að: „Við erum öll almannavarnir“.
- Sveitarstjórn telst vera stjórn fjallskilaumdæmis og ber ábyrgð á framkvæmd gangna og rétta og ber að tryggja að reglum um sóttvarnir sé fylgt eftir.
- Vegna fjöldatakmarkana er mælst til þess að gestir komi ekki til réttarstarfa. Því verður fylgt strangt eftir að við réttarstörf séu ekki fleiri en 200 manns.
- Allir sem taka þátt í göngum og réttum skulu hlaða niður smitrakningarappi almannavarna.
- Vegna smitvarna er mælst til þess að áfengi verði ekki haft um hönd.
- Fjallaskálar/húsnæði sem notað er við göngur eru eingöngu opin fyrir smala og þá sem hafa hlutverk í göngum/leitum þann tíma sem göngur/leitir standa yfir. Ábyrgðaraðili fjallskila
tryggir í samvinnu við rekstraraðila húsnæðis að svo megi verða.
- Starfsmenn í göngum skulu hafa handspritt og grímur meðferðis

Almenna reglan er að eins fáir fari í göngur og hægt er. Liggja þarf fyrir listi um hvaða einstaklingar fari í göngur með upplýsingum sem nota má til að hafa samband við viðkomandi
einstakling gerist þess þörf.

Fyrir árið 2020 gildir að aðeins þeir sem hafa hlutverk mæti í göngur og réttir og er það vegna 200 manna hámarksreglu.
Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin fjöldatakmörkun.
Hliðvarsla verður við aðkeyrslu að réttum og þangað inn verður aðeins hleypt þeim sem þar eiga erindi.