Góð ferð á Samfés

Góð ferð á Samfés

Föstudaginn 27. febrúar sl. hélt hópur rúmlega 70 ungmenna úr félagsmiðstöðinni í Víkurröst til Reykjavíkur til að fara á Samfésball. Samfés eru samtök félagsmiðstöðva á Íslandi (www.samfes.is) sem halda fjölmarga viðburði sem og fræðslufundi ár hvert fyrir ungmenni í félagsmiðstöðvunum og starfsfólk þeirra. Samfésballið er árlegur viðburður sem alltaf nýtur gríðarlegra vinsælda sem sést best á því að nú sóttu ballið á fjórða þúsund ungmenni en herlegheitin fóru fram í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Á ballinu koma jafnan fram vinsælustu hljómsveitir landsins og er slegist um að fá að spila fyrir krakkana. Meðal hljómsveita þetta árið voru: Írafár, Quarashi, Land og synir, Í svörtum fötum, Love Guru, Skítamórall, 200.000 Naglbítar, Á móti sól, Kalli Bjarni auk sigurvegara úr söngkeppni Samfés ofl. þannig að sjá má að þarna voru engir aukvisar á ferð! Ferðin stóð frá föstudegi til sunnudags og var ýmislegt gert til skemmtunar og fróðleiks meðan á henni stóð. Farið var í Bláa Lónið, margir nýttu frítíma í verslunarferð eða til að heimsækja ættingja og vini. Við heimsóttum Listasafn Reykjavíkur og skoðuðum listaverk Ólafs Elíassonar og myndir úr myndaröðinni Stríð eftir Erró. Sú heimsókn kom mörgum á óvart og höfðu allir gaman af. Einnig var komið við í Kolaportinu, sumir fóru í keilu og við fórum á forsýningu myndarinnar 50 first dates sem verður ekki sýnd almenningi fyrr en í lok apríl. Gist var í félagsmiðstöðinni Selinu á Seltjarnarnesi en krakkar þaðan heimsóttu okkur sl. helgi og fóru hér á skíði.
Ferðin tókst í alla staði frábærlega og voru krakkarnir okkar öðrum góð fyrirmynd með góðri framkomu og umburðarlyndi gagnvart félögum sínum. Án efa einn besti hópur sem farið hefur frá okkur á Samfésball og er þó sá fjölmennasti. Íþrótta - og æskulýðsfulltrúi ásamt starfsfólki í ferðinni þakkar krökkunum samveruna og fyrir það að sýna sínar allra bestu hliðar þegar á reyndi. Þið voruð frábær krakkar.