Glæsilegur Fiskidagur !

Fiskidagurinn mikli var haldinn með miklum glæsibrag sl. laugardag í blíðskaparveðri á Dalvík. Yfir 27.000 manns mættu á hátíðarsvæðið yfir allan daginn og var stöðug umferð fram og til baka til staðarins. 94.000 matarskammtar runnu ljúflega ofan í gesti dagsins sem voru í skýjunum með daginn. Fiskidagurinn mikli var nú haldinn í fjórða sinn og ávallt hefur matur, skemmtun  og tjaldstæði verið frí. Gestafjöldinn sem dvaldi í 2 - 5 daga hefur aldrei verið eins mikill  og nú, öll tjaldstæði voru full og tún og blettir vel nýttir. Það sem upp úr stendur af  frábærri helgi er hvað allt fór vel fram, lögreglan þurfti  ekki að hafa afskipti af einu eða neinu, allir voru glaðir og ánægðir og  þolinmóðir í umferðinni og samtaka um að eiga góða helgi og skemmta sér með fjölskyldunni og það má með sanni segja að Fiskidagurinn mikli sé ein stór fjölskylduhátíð. Gestir tjaldstæðanna eiga miklar þakkir skildar fyrir frábæra umgengni og skemmtilegt viðmót.

Við hvetjum ykkur til að líta á myndir frá deginum á Pedromyndir.is.

Ofangreinda frétt er að finna á heimasíðu Fiskidagsins mikla á www.julli.is