Gefum orðum líf - lestrarátak í Dalvíkurskóla

Lestur er grundvallarfærni og undirstaða almennrar menntunar. Í nýrri aðalnámskrá grunnskóla kemur fram að lestur er einn af grunnþáttum menntunar. Dalvíkurskóli er núna að innleiða þennan mikilvæga þátt í skólastarfi okkar.

Lestur hefur góð áhrif á málþroska barna og við stækkum heiminn með því að lesa bækur. Við lestur bókmennta læra nemendur t. d ýmislegt um samfélög og menningu. Bækur kenna okkur á fólk, að setja sig í spor annarra og eignast fyrirmyndir.

Rannsóknir sýna að lestur bókmennta hjá börnum og unglingum fer minnkandi og því er nauðsynlegt að leita leiða til að vekja áhuga nemenda á lestri góðra bókmennta þannig að nemendur geti lesið sér til gagns og yndisauka og í leið styrkt læsi sitt.
Það er afar mikilvægt að þjálfa lestur reglubundið og markvisst alla skólagönguna.

Allir nemendur í Dalvíkurskóla taka markvisst þátt í þriggja vikna lestrarátaki sem fer fram bæði í skólanum og heima. Þetta átak er fyrst og fremst miðað við lestur bókmennta og þurfa allir nemendur að skrá þann tíma sem fer í lestur bæði heima og í skólanum. Bekkirnir keppast við að ná vissum markmiðum. Einnig munu nemendur vinna ýmis verkefni tengd bókunum sem verða m.a gerð sýnileg bæjarbúum viðsvegar í bænum okkar.

Þetta lestrarþema köllum við Gefum orðum líf.