Gamli bærinn í Laufási

Gamli bærinn í Laufási

Gamli bærinn í Laufási opnar dyrnar upp á gátt sunnudaginn 30. maí kl 9 og býður velkomna alla þá gesti, innlenda og erlenda, sem leggja land undir fót þetta mikla ferðasumar sem nú fer í hönd.

Þennan fyrsta dag sumaropnunar mun hlaðið borð kræsinga svigna af nýbökuðu bakkelsi úr héraði í gamla Presthúsinu frá kl 14 til kl 17. Bökunarilmur mun fylla vitin og tertur, brauð og drykkir gæla við bragðlauka gesta þennan dag í Laufási. Leiðsögn um bæinn verður kl 14 þar sem meðal annars verður fjallað um viðgerðir þær sem hafa staðið yfir í bænum og framhald á þeim. Í sumar má nú sjá afrakstur viðgerða við Gamla bæinn sem fram fóru síðasta sumar. Baðstofan sem var hjartað í hverjum sveitabæ er nú tilbúin og því ánægjulegt fyrir gesti að geta gengið þar um á ný.

Hús eins og Laufásbærinn þarf á stöðugu viðhaldi að halda og í sumar verður því viðgerðum haldið áfram en að þessu sinni á skála og þökum tveggja húsa. Gestum mun því gefast tækifæri til þess að fylgjast með endurbótunum um leið og þær gerast. Það er einstakt tækifæri til að fræðast um gamalt handverk!

Gamli bærinn í Laufási er í umsjón Minjasafnsins á Akureyri en í eigu Þjóðminjasafns Íslands , sem stendur fyrir endurbótum á honum.

Gamli bærinn í Laufási er opinn í sumar daglega frá kl 9-18 til 12. september.