Fyrsti veturinn í Dalvíkurbyggð

Fyrsti veturinn í Dalvíkurbyggð

Þú hefur ekkert séð enn!

Þetta hafa margir íbúar Dalvíkurbyggðar sagt við mig nú í lok vetrar, veturinn hafi verið mildur, snjóléttur og án snjóstorma. Undir það get ég tekið og er ég nú ýmsu vön vestan af fjörðum.

Þá stytti það veturinn verulega sá fjöldi fólks sem dvaldi hér um skemmri og lengri tíma meðan kvikmyndaverkefni True North og HBO stóð yfir. Allt umstangið í kringum verkefnið hleypti miklu lífi í samfélagið og vakti jákvæða og góða athygli á Dalvíkurbyggð og fyrir vikið fannst mér janúar líða mjög hratt.

Undanfarna daga hefur verið mikil umræða um fjármál sveitarfélaga og fréttir bera þess merki að allt sé í kalda koli á sveitarstjórnarstiginu. Þessi umræða hefur skapast í kjölfar bréfa sem Eftirlitsnefnd sveitarfélaga hefur sent út til helmings sveitarfélaga í landinu. Því er eðlilegt að íbúar Dalvíkurbyggðar spyrji um stöðu síns sveitarfélags. Það er ánægjulegt að geta upplýst íbúa Dalvíkurbyggðar að fjárhagur sveitarfélagsins stenst öll þau viðmið sem Eftirlitsnefndin horfir til. Ársreikningur Dalvíkurbyggðar var kynntur af endurskoðendum sveitarfélagsins á fundi byggðaráðs nú í vikunni og niðurstaðan er jákvæð rekstrarniðurstaða bæði af A-hluta sem og samstæðu sveitarfélagsins. Á fjárhagsáætlun ársins 2022 var gert ráð fyrir því að sveitarfélagið yrði rekið með halla, því er einstaklega ánægjulegt að sjá þennan viðsnúning á rekstrinum. Hann felst fyrst og fremst í aukningu í tekjum sveitarfélagsins annars vegar útsvari og hins vegar í framlögum frá Jöfnunarsjóði, sem og aðhaldi í rekstrargjöldum sem eru undir áætlun ársins. Ársreikningurinn verður tekin til fyrri umræðu í sveitarstjórn þriðjudag 25. apríl n.k.

Ný lög um meðhöndlun úrgangs og flokkunar tóku gildi um sl. áramót. Lögunum er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs. Lögin kveða á um, að við hvert heimili skuli flokka í fjóra flokka, þ.e. pappír og pappa, plast, lífrænan úrgang og blandaðan úrgang. Dalvíkurbyggð uppfyllir nú þegar þessar kröfur um flokkun við heimili, en betur má ef duga skal. Frá síðustu áramótum er sveitarfélögum óheimilt að greiða með málaflokknum og þeim gert skylt að innheimta gjald sem næst þeim raunkostnaði sem þjónustan kostar. Þar ber hæst kostnaður við blandaðan úrgang sem fellur allur á sveitarfélögin, það er því mikill akkur að íbúar og fyrirtæki í sveitarfélaginu flokki sem mest því það mun skila sér beint í lægri sorphirðugjöldum ef vel er að staðið.

Það voru slæm tíðindi, beint í kjölfar niðurstöðu á ástandi Gamla skóla, þegar skoðun á húsnæði byggðasafnsins okkar Hvols leiddi í ljós að þörf er á verulegu viðhaldi. Því var strax ráðist í það verkefni að losa neðri hæð hússins og koma safnkosti í örugga geymslu. Sveitarstjórn skipaði vinnuhóp sem hefur það verkefni, meðal annars, að skoða húsnæðismál byggðasafnsins og leita leiða til þess að finna því húsnæði til framtíðar. Niðurstaða af stefnumótunarfundi sem haldinn var 3.mars er beðið með nokkurri óþreyju, ég bind vonir við að afrakastur þeirrar vinnu verði leiðarvísir sem varðar okkur leiðina að því hvernig safn við viljum byggja upp til framtíðar.

Samráð við íbúa skiptir miklu máli og það er ánægjulegt að sjá hversu vel hefur verið mætt til þeirra þriggja íbúafunda sem haldnir hafa verið frá lokum október í fyrra og til loka apríl í ár. Fjórði fundurinn er á dagskrá í byrjun maí þar sem niðurstaða frumhönnunnar Brimnesárvirkjunar verður kynnt og ég efast ekki um að hann verðu jafnvel sóttur og hinir þrír.

Á fundi um skipulagsmál í endaðan mars kom fram sú áhersla sem er á uppbyggingu í sveitarfélaginu, fyrirhuguð vinna við deiliskipulag fyrir íbúabyggð og útboð vegna vinnu við aðalskipulag Dalvíkurbyggðar. Íbúum Dalvíkurbyggðar hefur verið að fjölga og því er mikilvægt að sveitarfélagið sé tilbúið fyrir frekari fjölgun íbúa.

Á morgun er sumardagurinn fyrsti og það verður að segjast eins og er að sjá tveggja stafa hitatölur gefur vonir um að sumarið sé komið. Lengi er von á einum, segir máltækið en ég vona svo sannarlega að vetur konungur hafi sleppt takinu að þessu sinni.

Kæru íbúar Dalvíkurbyggðar, um leið og ég óska ykkur gleðilegs sumars þá þakka ég fyrir góðar móttökur og hlakka til áframhaldandi samstarfs við starfsfólk, íbúa og fyrirtæki í Dalvíkurbyggð.

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir