Fyrsta skóflustungan tekin að viðbyggingu við Krílakot

Í morgun tóku krakkarnir á leikskólanum Krílakoti fyrstu skóflustunguna að viðbyggingu við leikskólann en áætlað er að verkið verði klárað í sumar. Eitt tilboð barst í framkvæmdina og var það frá Tréverk ehf. á Dalvík. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 1. mars sl. tilboð Tréverks í verkið að upphæð kr. 47.673.749 og lagði til við bæjarstjórn að gengið yrði til samninga við Tréverk.
Börnin á Krílakoti hjálpuðust að við að hefja framkvæmdir, hvert með sína skóflu, og verðlaunaði bæjarstjórinn í Dalvíkurbyggð, Svanfríður Inga Jónasdóttir, börnin með íspinna sem féll í góðan jarðveg.  Myndir frá viðburðinum má finna á myndasíðunni hér til vinstri eða með því að smella hér.