Fyrsta skip íslenska flotans sem gengur fyrir innlendum orkugjafa

Í dag fimmtudaginn 15. desember kemur Bjögúlfur EA 312 til heimahafnar á Dalvík úr óvenjulegri veiðiferð. Það óvenjulega við þessa veiðiferð er, að Björgúlfur notaði innlendan orkugjafa, sem er lífdísill framleiddur hjá nýsköpunarfyrirtækinu Orkey á Akureyri. Lífdísillinn er framleiddur úr notaðri steikingarolíu og dýrafitu sem safnað er saman og búinn til lífdísill í stað þess að urða úrganginn. Þetta mun vera einsdæmi í heiminum að úrgangi sé breitt í orku sem síðan er notuð á fiskiskip. Frá því árið 2007 er Orkey var stofnað hefur það verið tilgangur félagsins að stuðla að sjálfbærri framleiðslu og notkun endurnýjanlegra orkugjafa og leitast við að taka þátt í framförum á því sviði.

Kristinn F. Sigurharðarson, framkvæmdastjóri Orkeyjar, segir þetta ánægjulegt skref í þeirri viðleitni félagsins að skapa verðmæti úr úrgangi og nota til þess endurnýjanlega orku. Þetta sé mjög ánægjulegur áfangi sem gefi félaginu aukinn kraft til að takast á við næstu skref sem verða að auka frekar nýtingu úrgangs til orkuframleiðslu og minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Hluthafar Orkeyjar eru sextán talsins. Þeir eru Aura Mare, N1, Samherji, Víkey, Rafeyri, Tækifæri, Arngrímur Jóhannsson, Efnamóttakan, Hafnarsamlag Norðurlands, Mannvit, Norðurorka, Brim, HB Grandi, Höldur, Ágúst Torfi Hauksson og LÍÚ.

Nánari upplýsingar veitir Kristinn F. Sigurharðarson, framkvæmdastjóri Orkeyjar, s. 893-5250.