Fyrsta miðvikudagsganga Ferðafélags Svarfdæla í dag

Ferðafélag Svarfdæla bryddar upp á þeirri nýjung í sumar að klukkan 17:00 flesta miðvikudaga verða gönguferðir um ýmsar náttúruperlur í Dalvíkurbyggð. Fyrsta gangan er í dag og er ferðinni heitið fram að Steindyrum til að ganga upp með og skoða gilið sem kennt er við bæinn og hinn fallega foss sem þar fellur í gljúfrinu. Mæting er á bílastæðinu við Dalvíkurkirkju, sem oftast er upphafsstaður ferðanna. Þátttakendur þurfa sjálfir að sjá sér fyrir fari fram að Steindyrum eða þiggja far með einhverjum sem hefur laust sæti.

Þetta er ferð við hæfi allrar fjölskyldunnar og tekur hún 1-2 klukkustundir. Dóra Reimars verður fararstjóri í þessari ferð.

ALLIR eru VELKOMNIR hvort sem þeir eru í félaginu eða ekki og ekkert gjald er í göngurnar.

Að viku liðinni verður síðan gengið upp í Melrakkadal.