Fyrirtæki í sveitarfélaginu sjá tækifæri til vaxtar

Í lok nóvember og byrjun desember var gerð atvinnulífskönnun í fyrirtækjum í Dalvíkurbyggð. Farið var í heimsókn í 30 fyrirtæki og framkvæmdastjórar spurðir um stöðu þess. Starfsmenn þessara fyrirtækja voru frá einum uppí 160. Samtals voru þeir starfsmenn fyrirtækjanna sem könnunin náði til 683. Hér fyrir neðan gefur að líta spurningar sem lagðar voru fyrir framkvæmdastjóra fyrirtækjanna.

• Er fækkun eða fjölgun starfsmanna í nálægðri framtíð? 59% sögðu engar breytingar framundan í þeim efnum, 26 % sögðu fækkun framundan og 15% fjölgun. Þess ber að geta að þau fyrirtæki sem ætluðu að fjölga starfsfólki voru stærri en fyrirtækin sem ætluðu að fækka starfsfólki. Þannig var fjölgun starfsmanna í heild meiri en fækkun.

• Helstu kosti þess að reka fyrirtæki í Dalvíkurbyggð sögðu svarendur vera stöðugt vinnuafl, góðar samgöngur, frábært samfélag og öflugt mannlíf, gott starfsumhverfi, þægileg stærð á sveitarfélaginu, ódýrt húsnæði, vera á landsbyggðinni og góða þjónusta hafnarinnar.

• Helstu gallar þess að reka fyrirtæki í Dalvíkurbyggð sögðu svarendur vera dýran flutning, takmarkaða vaxtarmöguleika vegna þess hve íbúar eru fáir, skipafélög eru ekki með siglingar héðan, fjarlægð frá birgjum, millilandaflug ekki til staðar og fjarlægð frá mörkuðum.

• 97% töldu vera sóknarfæri til að hefja atvinnurekstur í Dalvíkurbyggð og var helst nefnd ferðaþjónusta og að atvinnuhúsnæði og lóðir væru til staðar.

• 90% svarenda töldu að efla þyrfti atvinnulíf í Dalvíkurbyggð, flestir vildu meiri fjölbreytni og að styðja eigi það sem fyrir er. Einnig var nefnt að störf sem krefjist meiri menntunar skorti.

• Um 50% töldu sig geta haft hag af samstarfi við aðila innan og utan sveitarfélagsins og 45% töldu vaxtar- eða hagræðingarmöguleika vera ef nýjir hluthafar kæmu inní núverandi rekstur. 60% fyrirtækjanna sögðust sjá tækifæri til vaxtar sem þeir ætluðu að skoða nánar.

• Utanaðkomandi þættir sem mikilvægastir voru taldir varðandi möguleika á hagræðingu í rekstri voru: Vextir og verðtrygging, erlendu lánin, kvótaaukning, flutningsjöfnun, efnahagsástandið batni og lög um gámafisk. 40% fyrirtækjanna töldu gengisþróun hafa neikvæðustu áhrifin á reksturinn, 14% sögðu flutninga, 12% verkefnastöðu og önnur 12% aðgengi að fjármagni.

• Framkvæmdastjórar voru spurðir hvernig staða fyrirtækisins væri núna í kjölfar sviptinga í efnahagslífi Íslands. 63% töldu stöðuna góða, 17% erfiða, 10% slæma og 10% óbreytta. Misjafnt var hvernig spurningunni um hvernig þetta umrót kæmi við fyrirtæki var svarað. Flestir eða 44% sögðu að óvissa væri mikil núna, 21% engin áhrif, 21% lítil áhrif og 14% mikil áhrif.

• Helmingur svarenda voru bjartsýnir á framtíðina en hinn helmingurinn óviss um framtíðina. Þá var spurt hvað gæti orðið til að framtíðarsýnin batnaði og var þar þrennt nefnt til sögunnar, 42% sögðu kvótaaukning, 37% stöðugt gengi og 21% stöðugt efnahagslíf.

Kvótaaukning hefur nú átt sér stað uppá 30.000 tonn og hefur það mjög jákvæð áhrif á atvinnulíf í Dalvíkurbyggð.