Futsal leikur

Futsal leikur

Í gær lék Dalvík/Reynir sinn fyrsta leik í E-riðli Futsal innimóts KSÍ en þeir leika í riðli með
Draupni frá Akureyri og Tindastóli frá Sauðárkróki. Futsal er innanhússknattspyrna sem leikin
er með svolítið öðruvísi reglum en venjulega, notuð eru handboltamörk með markmönnum,
leiktími er stöðvaður þegar knöttur er úr leik, ákv. fjöldi brota þýðir víti og svo framvegis. Einnig
er knötturinn af sérstakri gerð, hann er minni en venjulega og linari viðkomu þannig að hann
boppar/skoppar minna en venjulegir knettir. Leiktími er 2x20 mín.

Það er skemmst frá því að segja að heimamenn unnu sanngjarnan sigur, 10-2 á Draupni í þessum
fyrsta leik. Áhorfendur, sem flestir voru karlkyns knattspyrnuiðkendur af yngri kynslóðinni í bland
við gamla refi, skemmtu sér hið besta og ástæða er til að hvetja fólk til að fylgjast með viðburðum
sem þessum og mæta á leiki. Næstu leikir fara fram laugardaginn 20. nóvember, þá leika Draupnismenn
fyrst gegn Tindastóli og síðan Dalvík gegn Tindastóli - leikirnir fara fram í íþróttamiðstöðinni á Dalvík.