Fundur norræna félagsins í Dalvíkurbyggð

Formleg starfsemi Norræna félagsins í Dalvíkurbyggð hefur legið niðri í nokkur ár en í haust hélt Norræna félagið á Íslandi aðalfund sinn og formannafund hér á Dalvík og kynnti um leið starfið fyrir gestum og gangandi í Dalvíkurbyggð. Þar mættu áhugasamir heimamenn og nokkrir höfðu samband og lýstu yfir áhuga á því að starf í félaginu yrði endurvakið.
Þann 27. febrúar n.k. verður haldinn fundur um starfssemi norræna félagsins í Dalvíkurbyggð á sal Dalvíkurskóla og hefst fundurinn klukkan 20:30.

Á þessum fundi hittast vonandi gamlir félagar og einnig aðrir sem áhuga hafa á því að félagsdeildin hér verði endurvakin og að líf færist í starfið. Þess má geta að fyrir dyrum stendur vinabæjamót í Viborg í Danmörku í vor, dagana 16. - 18. júní.

Um markmið Norræna félagsins og starf deildar þess má lesa í lögum þess á netinu (sjá http://www.norden.is/lognf.htm). Forsvarsmenn fundarins á þriðjudaginn eru Bjarni Gunnarsson íþrótta- og æskulýðsfulltrúi og Ole Lindquist sem hefur verið virkur í norrænum samskiptum og unnið með Norræna félaginu

Áhugasamir eru hvattir til að mæta og ræða málin.