Frumvarp til laga um hitaveitur

Í Iðnaðarráðuneytinu er nú í smíðum frumvarp til laga um hitaveitur. Samorka hefur mótmælt þeim drögum sem fyrir liggja varðandi frumvarpið. Bæjarráð tók fyrir bréf frá Franz Árnasyni formanni Samorku 10. apríl og var eftirfarandi bókað.
Bæjarráð tekur undir þau sjónarmið að ef setja á lög um hitaveitur verði að gæta þess að setja þeim ekki óeðlilega þröngan rekstrarramma og minnir á að eigendum hitaveitna, sveitarfélögunum í landinu, er það metnaðarmál að veita notendum góða þjónustu gegn hóflegu gjaldi. Mikilvægt er að sjálfstæði fyrirtækjanna sé virt og sérlög rýri hvorki verðgildi þeirra né möguleika eigenda til þess að njóta eðlilegs arðs.
Á fundi Bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar þann 15. apríl var framangreind bókun samþykkt samhljóða.