Frítt í sund fyrir 16 ára og yngri frá 15. mars og út maí

Sundlaug Dalvíkur hefur undanfarinn mánuð staðið fyrir heilsuátaki sem fjölmargir hafa tekið þátt í. Átakið felst í aðstoð við æfingar í sundi og líkamsrækt. Einnig í fræðslu, eftirliti, mælingum og almennri hvatningu til íbúa í Dalvíkurbyggð um að stunda hreyfingu og hollt mataræði.

Í framhaldi af þessu átaki hefur verið ákveðið að taka til hendinni með börnum og unglingum í Dalvíkurbyggð. Hreyfingu og mataræði barna og unglinga í þjóðfélaginu er verulega ábótavant og hrakar með hverju ári. Til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar og sporna við þessari þróun lagði íþrótta-, æskulýðs- og menningarráð Dalvíkurbyggðar til, að gerð yrði tilraun með að börn á grunnskólaaldri greiddu ekki aðgangseyri í Sundlaug Dalvíkur frá 15. mars til og með 31. maí 2008. Bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar samþykkti á fundi sínum þriðjudaginn 4. mars að þetta yrði gert.

Sundlaug Dalvíkur er vinsæll áfangastaður ferðamanna og einnig meðal heimamanna í Dalvíkurbyggð. „Frítt í sund" fyrir öll börn 16 ára og yngri verður vonandi góð hvatning til barna og unglinga um að auka hreyfingu sína og njóta vellíðunar í sundi. Einnig er vonast til að aðrir fjölskyldumeðlimir, mömmur og pabbar, afar og ömmur, láti frekar sjá sig með unga fólkinu í sundi en áður.

Ef tilraunin tekst vel má búast við að framhald verði á og í framtíðinni verði alltaf frítt í sund fyrir aldurshópinn 16 ára og yngri. Í dag er frítt í sund fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja í Dalvíkurbyggð.