Frá sveitarstjóra til starfsmanna Dalvíkurbyggðar

Frá sveitarstjóra til starfsmanna Dalvíkurbyggðar

Nú er runnið upp nýtt ár og það virðist ætla að hlaupa hjá enda hlaupár. Strax kominn febrúar með hækkandi sól. Þá er að staldra við og njóta augnabliksins, muna að vera hér og nú. Það var margt í fyrirlestrum starfsdagsins sem var umhugsunarvert og kveikti vonandi hugmyndir um núvitund hjá fleirum en mér.

Störfin sem við sinnum eru misjöfn en öll eru þau mikilvæg og hvert starf er hlekkur í þjónustukeðju Dalvíkurbyggðar. Þjónustu sem við viljum hafa fyrsta flokks því eins og fram kom í erindi Arnars Þórs er samkeppnin hörð og oft óvægin. Starfsgleði skiptir höfuðmáli, að við höfum ánægju af starfinu og hlökkum til að mæta til vinnu á hverjum morgni. Þar höfum við val eins og fram kom hjá Hrafnhildi hjá Hugarfrelsi. Hvernig við veljum fyrir okkur sjálf mótar líf okkar og starf og því er mikilvægt að velja vel.

Fyrirlesarar starfsdagsins í ár voru valdir eftir ábendingar frá stofnunum sveitarfélagsins og það tókst vel. Næsti starfsdagur Dalvíkurbyggðar verður
15. janúar 2021. Því hvetjum við ykkur til að láta vita til stjórnenda ef þið sitjið áhugaverð erindi eða fyrirlestra sem þið teljið að eigi erindi til allra og gætu hentað vel á næsta starfsdegi.

 

En umfram allt, haldið áfram að vera þið því þið eruð frábær. Munið að velja gleðina í lífinu, jákvæðu hliðarnar og ykkur sjálf.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.