Forvarnardagurinn 2009

Forvarnardagurinn 2009

Forvarnardagurinn er haldinn í öllum grunnskólum landsins en hann er helgaður heillráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum
sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu. Dagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga,
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.

Íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna.
Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum.
Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna.
Niðurstöðurnar byggja á rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík sem hafa um árabil rannsakað áhættuhegðun ungmenna og hafa þær vakið alþjóðlega eftirtekt.

Forvarnardagurinn var haldinn þann 30. september að þessu sinni en það er fjórða sinn sem það er gert. Dalvíkurskóli hefur tekið þátt hverju sinni en í þetta sinn voru það  Bjarni Gunnarsson íþrótta- og æskulýðsfulltrúi og Ólafur Hauksson umsjónarkennari sem höfðu veg og vanda af deginum. Dagurinn er aðallega ætlaður 9. bekkjum skólanna en krakkarnir fara í umræður um nokkur málefni sem snerta þau, setja niðurstöður sínar á blað og búa til veggspjöld sem sýna niðurstöðurnar. Einnig var kynntur netratleikur á netinu þar sem vegleg verðlaun eru í boði fyrir að svara nokkrum spurningum rétt.

Umræðuefnin voru að þessu sinni: Samvera fjölskyldunnar, þátttaka í íþrótta- og æskulýðsstarfi og það að hvert ár án áfengis skiptir máli. Niðurstöðurnar verða einnig settar inn á heimasíðu dagsins, www.forvarnardagurinn.is.

Að loknum umræðum þá fóru krakkarnir niður í íþróttahús þar sem farið var í ýmsa leiki, ísbrjóta og hópefli auk þess að þau fengu svolitla fræðslu í viðbót.
Forvarnardagurinn tókst með ágætum og krakkarnir stóðu sig vel, voru jákvæð og dugleg að taka þátt í umræðunum þar sem margt gott kom fram.
Við hvetjum alla til að kíkja á www.forvarnardagurinn.is  og skoða það sem þar er fyrir hendi.

Með bestu kveðjum, Bjarni Gunnarsson íþrótta- og æskulýðsfulltrúi