Fordæmalausir tímar og allt það!

Fordæmalausir tímar og allt það!

Í skugganum leynist oft ljóstýra – á þessum síðustu og verstu er mikilvægt að skoða ástandið sem nú hefur skapast með opnum huga. Getum við fundið eitthvað jákvætt við þessa fordæmalausu tíma? Margir hafa nýtt tímann til verka sem lengi hafa setið á hakanum, flestir eiga fleiri samverustundir með börnum og sínum nánustu, einhver gæti jafnvel verið byrjaður að lesa bókina sem hann ætlaði alltaf að lesa – flestir geta örugglega fundið eitthvað…
Auðvitað er ekkert jákvætt við veiruna sem slíka en það jákvæða birtist í þeim leiðum sem fólkið í landinu fer til að takast á við hana.

Hér kemur smá hugleiðing frá forstöðumanni safna og Menningarhússins Bergs.

Í Menningarhúsinu Bergi – inni á bókasafni, í hillu sem merkt S – fyrir skáldsögur, og svo aftur S í stafrófinu er að finna bók merkta Sig – Eyl. Þetta er bókin Eyland eftir Sigríði Hagalín – bók sem ég bara get ekki hrisst úr huga mér þessa dagana. Hafir þú ekki lesið umrædda bók ætla ég að byrja á því að mæla með því að þú gerir svo – en í stuttu máli setur Sigríður á svið ímyndaðar aðstæðum sem gætu skapast ef landið okkar yrði einangrað og sambandslaust við útlönd. Í bókinni er það með öllu óvitað hvort heimsbyggðin utan Íslands sé enn á sínum stað eða hvort Íslendingar séu í raun orðnir einir í heiminum. Flugvélar og skip eru send út í leit að svörum en snúa aldrei heim aftur. Óvissan er alger.


Þegar ég las bókina á sínum tíma sá ég efniviðinn sem fjarstæðukennda og hálf sturlaða framtíð en allt í einu er eins og valdir þættir sögunnar raungerist nú fyrir augum okkar – auðvitað ekki allt, guði sé lof. En það sem ég meina er að þetta eru vissulega sögulegir tímar – eins og úr vísindaskáldsögu.

Það sem þetta tvennt á sameiginlegt er þessi mikla óvissa – því sjaldan hefur ríkt jafn mikið óvissuástand í íslensku samfélagi og nú. Það sem er hins vegar mjög ólíkt í þeim aðstæðum sem við stöndum í í dag og atburðarrásar Eylands er að við vitum að við erum ekki ein – þvert á móti erum við öll, ekki bara íslendingar, heldur öll heimsbyggðin, í þessu saman. Lönd, þjóðflokkar, höfðingjar og valdakonur neyðast til að leggja til hliðar ágreining og pólitísk hagsmunamál til að finna leiðir til að takast á við faraldurinn í sameiningu, samtaka. Það er svo fallegt og því má ekki gleyma. Við heyrum það æ oftar í íslenskum fréttum að ákvarðanir eru teknar í þverpólitískri samstöðu – meira að segja í borgarstjórn Reykjavíkur, og hananú!

Auðvitað taka ekki allir jafn mikinn þátt en þessi samhugur er það sem mér finnst standa uppúr þegar öllu er á botninn hvolft. Starf safna Dalvíkurbyggðar hefur breyst gríðarlega síðastliðin misseri. Störf sem áður fólu í sér að búa til viðburði fyrir fólk, safna fólki saman og koma með frumlegar hugmyndir af afþreyingu fyrir einstaklinga að njóta í samveru – fela nú í sér að framfylgja sömu markmiðum nema án holdi klæddra mannvera. Nú viljum við að fólk haldi sig heima og sé í eins mikilli einveru og mögulegt er. Við höfum þurft að endurskoða margt og jafnvel geyma annað til betri tíma. Á sama tíma hefur þetta verið tækifæri til að kynnast og tileinka sér fjölbreytileika starfsins jafnvel enn frekar. Allt í einu hefur skapast andrými til að vinna mikilvægt innra starf sem starfsfólk kemst oft ekki yfir á venjulegum degi.

Á þessum tímum finnur maður sérstaklega fyrir mikilvægi safna og þá sérstaklega hversu mikið lykilhlutverk Bókasafn Dalvíkurbyggðar leikur í menningarlífi sveitafélagsins. Mikilvægi lesturs og læsis er óumdeilanlegt og bókasöfn eru einn af hornsteinum lestrarmenningar Íslands, um það verður ekki deilt. En það er ekki bara lesturinn sem skiptir hér máli því viðvera á safninu hefur ekki síður orðið partur af hversdegi margra bæjarbúa – þar eflum við félagsleg tengsl, kynnumst fólki, bætum við þekkingu okkar, hlægjum, leikum og slökum á – Menningarhúsið er nefnilega griðarstaður margra.

Til þess að viðhalda góðum tengslum við vini bókasafnsins á þessum undarlegu tímum höfum við fært okkur, jafnvel meira en áður, yfir í hinn rafræna heim og lagt okkur fram við að vera sýnileg og sniðug á samfélagsmiðlum. Ef við getum ekki boðið fólki til okkar getum við í það minnsta fært okkur til þeirra. Þetta er okkur hjartans mál.

Frá fyrsta degi nýrra tíma var það ákveðið að hlutverk safnanna skyldi vera að útdeila gleði til samborgara okkar, bjóða fólki upp á nokkrar mínútur yfir daginn þar sem það getur tekið hugann frá COVID-19 og almennt létta lundina með fjölbreyttum leiðum.

Við munum halda okkar markmiðum áfram þangað til yfir líkur og þökkum fyrir frábærar viðtökur – endilega fylgið okkur áfram á facebook og Instagram